Samningur Johansson sagði til um að laun hennar fyrir að leika í myndinni tækju að miklu leyti mið af því hve vel henni gengi í kvikmyndahúsum. Hún segir ákvörðunina um að birta myndina á streymisveitunni samhliða kvikmyndahúsum hafa komið verulega niður á launum hennar.
Í frétt Guardian segir að tekjur af sýningu myndarinnar í kvikmyndahúsum hafi verið háar í upphafi. Fyrstu vikuna hafi þær verið um 80 milljónir dala. Aðra vikuna lækkuðu tekjurnar þó um 67 prósent.
Samtök kvikmyndahúsa sögðu þá lækkun hafa orðið vegna birtingar myndarinnar á Disney+. Í yfirlýsingu frá samtökunum, sem kallast NATO, segir að allir aðilar hagnist mest á því að sýna kvikmyndir eingöngu í kvikmyndahúsum í fyrstu.
Þetta er ekki í fyrsta sinn og væntanlega ekki í síðasta sinn sem deilt er um frumsýningar og streymisveitur.
Í kæru Johansson segir að forsvarsmenn Disney+ hafi viljað fjölga áskrifendum sínum og auka verðmæti hlutabréfa. Yfirmenn fyrirtækisins hafi fengið milljónir dala í laun og bónusa. Það hafi hins vegar verið gert á kostnað leikkonunnar.
Áhugasamir geta lesið kæru Johansson hér.
Í kærunni segir að við samþykkt samningsins hafi öllum átt að vera ljóst að samkvæmt honum ætti kvikmyndin að vera eingöngu sýnd í kvikmyndahúsum í 90 til 120 daga.
Deadline segir að umboðsmenn Johansson hafi reynt að gera nýjan samning við Marvel eftir að Disney tilkynnti að Black Widow yrði einnig sýnd á Disney+. Sú viðleitni hafi verið hunsuð af forsvarsmönnum fyrirtækjanna.
Þá segir miðillinn frá því að eftir að myndin var sýnd á Disney+ hafi ólögleg eintök hennar farið í mikla dreifingu á netinu. Frá því hún var frumsýnd þann 9. júlí hafi engri kvikmynd verið halað jafn oft niður ólöglega.
Uppfært 21:40
Blaðamaður New York Times segir forsvarsmenn Disney hafna ásökunum Johansson alfarið. Þeir segjast hafa farið eftir samningnum í öllu og bæta við að útgáfa Black Widow á Disney+ hafi aukið laun Johansson, til viðbótar við þær tuttugu milljónir dala sem hún hafi þegar fengið.
Disney continued: "Disney has fully complied with Ms. Johansson s contract and furthermore, the release of Black Widow on Disney+ with Premier Access has significantly enhanced her ability to earn additional compensation on top of the $20M she has received to date.
— Brooks Barnes (@brooksbarnesNYT) July 29, 2021