Þar á meðal var Karl Bretaprins.
Verið var að afhjúpa minnisvarða fyrir látna lögregluþjóna þegar Johnson virtist eiga erfitt með að opna regnhlíf sína. Honum tókst það þó og bauð Priti Patel, innanríkisráðherra, sem afþakkaði boðið. Við það féll regnhlíf Johnsons saman.
Þegar hann opnaði hana aftur kom vindhviða svo regnhlífin fauk upp.
Patel og aðrir sem sátu með forsætisráðherranum hlógu að atvikinu en þar á meðal var Karl Bretaprins, sem sat við hlið Johnsons.
Þetta var í annað sinn á tveimur dögum sem hlegið er að forsætisráðherranum vegna regnhlífar.
Í fyrradag gerðu netverjar mikið grín að Johnson eftir að hann opinberaði nýja herferð gegn glæpum. Þá var hann einnig með regnhlíf en var þrátt fyrir það rennandi blautur.
Margir gerðu grín að honum fyrir að virðast ekki kunna að nota regnhlíf almennilega.