Það gekk ekki jafn auðveldlega fyrir sig og hann hafði vonað og þylur hann upp hrakfallasögu sína í myndbandi sem birtist í gær og nálgast milljón áhorf óðfluga.
Hann mætti brattur að Fagradalsfjalli í fylgd með Birni Steinbekk, drónamanni með meiru. Fyrr um daginn hafði verið bullandi virkni í gosinu en þegar kumpánarnir mættu á gosstað kom í ljós gosvirknin hafði fallið alveg niður og ekki vottur af kviku í sjónmáli.
Þeir tóku þó engu að síður upp innslag við storknað en ylvolgt hraunið áður en þeir héldu til baka. Í leiðinni náðu þeir „kjánum“ að ganga ofan á hrauninu á upptöku (sem má sjá þegar um þrjár mínutur og tuttugu sekúndur eru liðnar af myndbandinu).
Björn stakk upp á því að ganga aðra leið til baka, sem er mun torfærari og rann Tom nokkrum sinnum á rassinn í bröltinu.
Fljótlega eftir að þeir komu í bæinn byrjaði að mælast gosvirkni á ný og ekki leið á löngu þar til að hraungusur fóru að sjást á vefmyndavélum.
Þeir ákváðu því að bruna aftur rakleiðis að Fagradalsfjalli og leggja upp í göngu númer tvö þann daginn, þó Tom væri skiljanlega þreyttur eftir þá fyrri. Þegar þeir voru að nálgast gíginn skall á svartaþoka, svo það var ómögulegt að komast lengra, auk þess sem að vindáttin var að verða óhagstæð upp á gasmengun.
Björn náði einhverjum drónaskotum af hrauninu í gígnum en Tom sá ekkert nema þoku og reyk. Hann eyddi samtals 7-8 klukkustundum bara í göngurnar þann daginn.
En það var enn von, hann átti einhverja daga eftir á landinu og vonaðist til að geta allavega náð einni „túristaheimsókn“ að gosinu áður en hann færi. Þá fékk hann heiftarlega matareitrun, eftir upplifun af „mexíkansk-íslenskri matargerð“.
Á lokadeginum var hann búinn að jafna sig, og ætlaði þá að reyna að ráðast í örsnögga göngu, þó það væri einungis til að ná einni mynd af sér með gosinu. En nei, þá hafði gosið þagnað á ný og Tom hélt daufur í dálkinn heim á leið.