Stofnunin mun kanna málið í vikunni en í samtali við fréttastofu segir Helga Sigríður Þórhallsdóttir, sviðsstjóri eftirlits hjá Persónuvernd, að engin afstaða verði tekin til málsins strax. Enn á eftir að kanna málavexti.

Forsvarsmenn ReyCup hafa sagt að málið hafi stafað af athugunarleysi, en að ekkert bendi til þess að nokkur ásetningur um að fylgjast með stúlkunum hafi verið fyrir hendi.
Framkvæmdastjóri Laugardalshallar hefur bent á að Laugardalshöll sé að upplagi ekki hugsuð sem gistiaðstaða.
Helga Sigríður segir að almennt gildi að breytist starfsemi í rými þar sem vöktun fer fram, þurfi áfram að huga að því að vöktun undir nýjum kringumstæðum sé heimil.
„Það má vakta rými undir ákveðnum kringumstæðum, til dæmis í öryggistilgangi, eða til þess að verja eignir eða þess háttar. En þegar notkunin á rýminu breytist þarf að huga að því að notkunin sé áfram heimil,“ segir Helga í samtali við fréttastofu.
„Ef niðurstaðan er yfirleitt sú að það sé yfirleitt í lagi að vakta viðkomandi rými, þarf að hafa í huga að merkingar séu í lagi þannig að það séu allir meðvitaðir um vöktunina.“
Loks segir Helga að persónuupplýsingar barna njóti þá sérstakrar verndar samkvæmt persónuverndarlöggjöfinni.