Sport

Olíuborni Tongverjinn á sínum stað á setningarhátíðinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pita Taufatofua og Malia Paseka voru fánaberar Tonga á setningarhátíð Ólympíuleikanna.
Pita Taufatofua og Malia Paseka voru fánaberar Tonga á setningarhátíð Ólympíuleikanna. getty/Hannah McKay

Þriðju Ólympíuleikana í röð gekk taekwondo-kappinn Pita Taufatofua inn á með fána Tonga á setningarhátíðinni.

Taufatofua vakti fyrst athygli sem fánaberi Tonga á Ólympíuleikunum í Ríó 2016. Hann gekk inn á Ólympíuleikvanginn í Ríó ber að ofan, vel olíuborinn og í einhvers konar pilsi.

Taufatofua var einnig fánaberi Tonga á Vetrarólympíuleikunum í PyeongChang 2018 þar sem hann keppti í skíðagöngu.

Að sjálfsögðu var Taufatofua svo mættur á setningarhátíð Ólympíuleikanna í Tókýó í dag, olíuborinn sem aldrei fyrr. Hann bar tongverska fánann inn á ólympíuleikvanginn ásamt Maliu Paseka sem keppir einnig í taekwondo.

Taufatofua, sem keppir í áttíu kg flokki, mætir til leiks á föstudaginn í sextán manna úrslitum taekwondo keppninnar.

Hinn fjölhæfi Taufatofua er menntaður vekfræðingur. Hann býr í Ástralíu og er sendiherra fyrir UNICEF.

Taufatofua er einn sex fulltrúa Tonga á Ólympíuleikunum í Tókýó. Tonga er eyjaklasi í Suður-Kyrrahafi en þar búa rétt rúmlega hundrað þúsund manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×