Innlent

Maðurinn sem flúði land grunaður um mann­dráp kominn aftur til Íslands

Eiður Þór Árnason skrifar
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglan

Rúmenskur karlmaður sem braut farbann og flúði land á dögunum er kominn aftur til landsins. Maðurinn er grunaður um að hafa orðið Daníel Eiríkssyni að bana og var í farbanni til 1. september.

Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við fréttastofu.

Margeir segir að maðurinn hafi komið til Íslands um helgina en vildi annars lítið tjá sig um málið. Hann gaf ekki upp hvernig maðurinn kom til landsins eða hvort það hafi verið að eigin frumkvæði.

Fram kom á miðvikudag að til stæði að gefa út evrópska handtökuskipun vegna mannsins. Margeir sagði þá að lögreglan vissi hvar hann væri niðurkominn en talið er að hann hafi orðið sér út um nýtt vegabréf eftir að hans eigið var gert upptækt af lögreglu. 

Mjög slæmt ef úrræði lögreglu halda ekki

Daníel fannst illa leikinn fyrir utan heimili sitt í Kópavogi þann 2. apríl síðastliðinn. Upphaflega voru þrír rúmenskir karlmenn handteknir en tveimur var sleppt í framhaldinu. Daníel hlaut talsverða höfuðáverka en grunur leikur á að bíl hafi verið ekið á hann, eða að hann hafi dregist eftir bifreiðinni. Daginn eftir var Daníel úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi.

„Farbann er ekkert öruggt úrræði og það er svo sem okkar reynsla að menn hafa alveg geta farið úr landi þó þeir sæti farbanni ef einbeittur vilji er fyrir hendi til að koma sér út land,“ sagði Margeir í síðustu viku.

„Þetta eru þau úrræði sem við höfum og ef menn geta farið svona auðveldlega framhjá því þá er það mjög slæmt.“

Talið var að maðurinn hafi flogið til London og svo áfram til Rúmeníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×