Í vikunni er listahátíðin LungA á Seyðisfirði og í næstu viku eru Franskir dagar á Fáskrúðsfirði og Bræðslan á Borgarfirði eystri. Að vanda er mikil veðurblíða á Austurlandi og spáir sólríku veðri næstu daga. Tjaldstæði eru þétt setin og töluverð aukning er í fjölda ferðamanna.
Því má búast við því að töluvert fleiri verði á Austurlandi næstu tvær vikur en gengur og gerist. Lögreglan á Austurlandi virðist hafa nokkrar áhyggjur af því vegna nýlegra fregna af tveimur Covid-19 smitum utan sóttkvíar um nýliðna helgi.
Þá biður lögreglan rekstraraðila á svæðinu að hafa sótthreinsispritt aðgengilegt fyrir þá sem vilja. Nokkuð hefur borið á að spritt sé ekki sýnilegt við inngang verslana eftir að það hætti að vera skylda.
Að endingu biður lögreglan fólk að njóta sumarsins og blíðunnar, enda eigum við það skilið.