Innlent

Biðla til fólks að fara varlega á stórum mannamótum fram undan

Árni Sæberg skrifar
Listahátíðin LungA er meðal þeirra hátíða sem fram fara á Austurlandi næstu tvær vikur.
Listahátíðin LungA er meðal þeirra hátíða sem fram fara á Austurlandi næstu tvær vikur. MYND/TIMOTHÉE LABBRECQ

Búist er við mikilli mannmergð á Austurlandi næstu tvær vikur enda fara þar fram þrjár stórar bæjarhátíðir. Aðgerðastjórn vegna Covid-19 á Austurlandi hefur því biðlað til fólks að fara varlega og huga að persónubundnum smitvörnum.

Í vikunni er listahátíðin LungA á Seyðisfirði og í næstu viku eru Franskir dagar á Fáskrúðsfirði og Bræðslan á Borgarfirði eystri. Að vanda er mikil veðurblíða á Austurlandi og spáir sólríku veðri næstu daga. Tjaldstæði eru þétt setin og töluverð aukning er í fjölda ferðamanna.

Því má búast við því að töluvert fleiri verði á Austurlandi næstu tvær vikur en gengur og gerist. Lögreglan á Austurlandi virðist hafa nokkrar áhyggjur af því vegna nýlegra fregna af tveimur Covid-19 smitum utan sóttkvíar um nýliðna helgi. 

Þá biður lögreglan rekstraraðila á svæðinu að hafa sótthreinsispritt aðgengilegt fyrir þá sem vilja. Nokkuð hefur borið á að spritt sé ekki sýnilegt við inngang verslana eftir að það hætti að vera skylda.

Að endingu biður lögreglan fólk að njóta sumarsins og blíðunnar, enda eigum við það skilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×