Innlent

Eldgosið sést á ný í kröftugum gusuham á vefmyndavél Vísis

Kristján Már Unnarsson skrifar
Eldgígurinn á áttunda tímanum í kvöld. Hraunárnar flæða frá gígnum í miklum gusum.
Eldgígurinn á áttunda tímanum í kvöld. Hraunárnar flæða frá gígnum í miklum gusum. Vefmyndavél Vísis/Skjáskot

Eftir að hafa verið hulið sjónum manna og vefmyndavéla undanfarinn sólarhring sést núna á ný til eldgígsins í Geldingadölum en þokunni létti af eldstöðinni um kvöldmatarleytið. Á vefmyndavél Vísis mátti sjá að mikill kraftur hefur verið í gosinu í kvöld og hraunið flætt í gusum frá gígnum með reglubundnu millibili.

Hér má tengjast vefmyndavél Vísis

Eldgosið í Fagradalsfjalli hætti skyndilega í nokkrar klukkustundir síðastliðna nótt og óróamælar bentu til þess í dag að verulega hefði dregið úr krafti þess. Þar sem þoka hamlaði skyggni að gígnum fékkst þó engin engin staðfesting á því í dag að enn gysi, fyrr en núna í kvöld.

Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá að bílamergð var við Suðurstrandarveg í dag. Dimm þoka var yfir gosstöðvunum og fátt sem ferðamenn gátu séð nema nýstorknað hraunið í Nátthaga og vinnuvélar við varnargarð.

Páll Einarsson sýnir hvar óróapúlsinn hætti síðastliðna nótt þegar gosið lá niðri. Óróaritið sýnir tíu daga aftur í tímann og má sjá eðlisbreytinguna sem varð fyrir tæpri viku þegar sveiflurnar byrjuðu.Arnar Halldórsson

Óróarit Veðurstofunnar sýnir að eðlisbreyting varð á gosinu í síðustu viku, þegar sveiflur fóru að koma í tiltölulega jafnan óróa sem verið hafði vikum saman. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir þá hafa orðið þáttaskil og gosið um tíma farið í gusuham.

Um miðjan dag í gær hætti gosið skyndilega í um hálftíma, tók sig svo aftur upp en hætti svo aftur í gærkvöldi í nokkra klukkutíma. Um tvöleytið í nótt hófst óróinn svo á ný.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

Hér fyrir neðan má síðan sjá myndbönd sem áhorfendur náðu af vefmyndavél Vísis þegar gosið tók kipp.


Tengdar fréttir

Ó­mögu­legt að segja til um hvað sé að gerast á gos­stöðvunum

Jarðskjálftafræðingur segir ómögulegt að segja til um hvað sé að gerast á gosstöðvunum í Geldingadölum en þoka veldur því að sérfræðingar geta ekki farið að svæðinu í dag. Órói féll verulega í gærkvöldi sem gæti verið til marks um byrjunina á endanum á gosinu. 

Gos­ó­róinn minnkar: „Byrjunin á endinum?“

Einhverjir hafa velt því fyrir sér í kvöld hvort eldgosinu við Fagradalsfjall sé lokið. Óróinn við gosstöðvarnar féll töluvert á níunda tímanum í kvöld og hefur verið á nokkurri niðurleið en hefur fundist að nýju þegar liðið hefur á kvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×