Það var laust fyrir hádegi í dag sem lögreglu barst tilkynning um að verið væri að skjóta á þorpið, að því fram kemur í fréttum grænlensku fjölmiðlanna Sermitsiaq og KNR, en báðir vitna til fréttatilkynningar grænlensku lögreglunnar. Tæplega eitthundrað manns búa í þorpinu Ikamiut, sem er við sunnanverðan Diskó-flóa.
Áður hafði verið tilkynnt um að þrjár ungar konur hefðu stolið litlum báti. Þegar fulltrúi yfirvalda í þorpinu hugðist leysa málið og framkvæma borgaralega handtöku svöruðu stúlkurnar með því að skjóta af rifflum og sigla lengra frá landi.
Lögreglan tilkynnti svo um miðjan dag að tekist hefði að handsama stúlkurnar og afvopna þær. Tókst aðgerðin friðsamlega og án þess að nokkur slasaðist, rifflar voru teknir af þeim og hættuástandi aflýst í þorpinu. Lögreglan vildi að öðru leyti litlar upplýsingar veita um málið, þannig var ekkert nánar gefið upp um aldur stúlknanna.