Innlent

Haraldur hættur við að hætta líka

Jakob Bjarnar skrifar
Haraldur Benediktsson gaf berlega til kynna að hann ætlaði að hætta í stjórnmálum ef hann hreppti ekki oddvitasætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Það gekk ekki eftir en nú er Haraldur hættur við að hætta.
Haraldur Benediktsson gaf berlega til kynna að hann ætlaði að hætta í stjórnmálum ef hann hreppti ekki oddvitasætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Það gekk ekki eftir en nú er Haraldur hættur við að hætta. Stöð 2/Arnar

Haraldur Benediktsson þingmaður hefur ákveðið að þiggja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins.

Þetta kemur fram á vestlenska fréttavefnum Skessuhorni. Hann segir í samtali við blaðamann þar að hann hafi tekið þá ákvörðun að þiggja 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Vísir hefur fjallað ítarlega um vandræðagang Haralds hvað varar framboðslista fyrir komandi Alþingiskosningar. Þar hefur Haraldur slegið úr og í. Hann lýsti því yfir að hann ætlaði að snúa sér að öðru ef hann myndi ekki hafa betur gegn Þórdísi Kolbrúnu R Gylfadóttur ráðherra í prófkjörsbaráttu. Það gekk ekki eftir auk þess sem ummæli Haraldar þess efnis voru af konum í flokknum túlkuð sem ósmekkleg hótun. Eftir að úrslitin lágu fyrir dró Haraldur nokkuð í land með að hann hafi sagst ætla að hætta. 

Hann segir nú í samtali við Skessuhorn að hann hafi ekki verið sannfærður um hvort hann tæki annað sætið; hann vildi gefa nýjum oddvita sviðið óskert.

„Vildi í það minnsta hugsa minn gang og heyra hljóðið í flokksforystunni og baklandi mínu. Ég hef á síðustu dögum meðtekið gríðarlegan fjölda áskorana um að þiggja annað sætið á listanum. Þar eiga í hlut bæði dyggir stuðningsmenn mínir í gegnum tíðina og einnig óflokksbundið fólk sem annt er um stöðu landsbyggðarinnar. Ég get því ekki litið framhjá þeirri staðreynd að þrátt fyrir allt virðist ennþá vera eftirspurn eftir störfum mínum á þingi,“ sagði Haraldur.

Vísir greindi frá því í morgun að Brynjar Níelsson, sem einnig hefur hætt við að hætta, hafi skorað á Harald að vera með sér í því.


Tengdar fréttir

Haraldur þiggur ekki annað sæti ef hann tapar odd­vita­slagnum

Haraldur Bene­dikts­son, odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins í Norð­vestur­kjör­dæmi, mun ekki þiggja annað sæti á lista flokksins í kjör­dæminu ef hann tapar bar­áttunni um odd­vita­sætið við Þór­dísi Kol­brúnu Reyk­fjörð Gylfa­dóttur í próf­kjöri flokksins um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×