Innlent

Landsréttur lækkar bætur í Shaken Baby-máli

Birgir Olgeirsson skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í Landsrétti fyrr í dag. 
Dómurinn var kveðinn upp í Landsrétti fyrr í dag.  Vísir/Vilhelm

Landsréttur hefur staðfest skaðabótaskyldu Reykjavíkurborgar gagnvart fjögurra manna fjölskyldu í máli sem hefur verið kennt við Shaken Baby-heilkenni. Fjölskyldunni hafði verið dæmdar samtals átta milljónir króna í skaðabætur í Héraðsdómi Reykjavíkur en Landsréttur ákvað að lækka skaðabæturnar í samtals fjórar milljónir króna.

Foreldrarnir voru sakaðir um að hafa hrist níu mánaða gamlan son þeirra í júní árið 2013. Lögreglan hætti rannsókn málsins tæpu ári síðar vegna þess að sönnunargögn þóttu ekki líkleg til sakfellingar. Svo fór að íslenska ríkið greiddi foreldrunum skaðabætur vegna ólögmætra aðgerða lögreglu og Barnaverndarstofu.

Reykjavíkurborg hafnaði hins vegar bótakröfu foreldranna og barna þeirra vegna framferði Barnaverndar Reykjavíkur sem heyrir undir Barnaverndarstofu.

Í desember árið 2019 féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á kröfu fjölskyldunnar um að borgin bæri að greiða henni skaðabætur vegna málsins. Reykjavíkurborg ákvað að áfrýja málinu til Landsréttar sem kvað upp dóm sinn í dag.

Þar féllst Landsréttur á að borgin væri skaðabótaskyld gagnvart fjölskyldunni en í stað þess að borgin bæri að greiða hverjum fjölskyldumeðlimi tvær milljónir í bætur, var borgin dæmd til að greiða hverjum þeirra eina milljón króna í bætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×