Innlent

Upp­hlaup vegna afar­kosta Haralds skerpa línur í Sjálf­stæðis­flokknum

Jakob Bjarnar skrifar
Óvænt hefur upphlaup í tengslum við Harald Benediktsson og prófkjör Sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi orðið til að afhjúpa átök milli fylkinga innan Sjálfstæðisflokksins. Andrés Magnússon telur þetta misráðið örþrifaráð en Brynjar er undrandi á upphlaupinu.
Óvænt hefur upphlaup í tengslum við Harald Benediktsson og prófkjör Sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi orðið til að afhjúpa átök milli fylkinga innan Sjálfstæðisflokksins. Andrés Magnússon telur þetta misráðið örþrifaráð en Brynjar er undrandi á upphlaupinu. vísir/vilhelm

Áhugamenn um stjórnmál og þar með innyfli Sjálfstæðisflokksins hafa komist í feitt í upphlaupinu í tengslum við afarkosti Haraldar Benediktssonar vegna komandi prófkjörs í Norðvesturkjördæmi.

Eins og Vísir hefur greint skilmerkilega frá var uppi fótur og fit meðal ýmissa Sjálfstæðismanna þegar spurðist að Haraldur Benediktsson oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi vildi láta gott heita í pólitíkinni ef hann hreppti ekki efsta sætið. Fjölmargir flokksmenn, einkum konur, furðuðu sig á þessu og töldu þetta til marks um karlpungahátt sem allt of lengi hafi riðið húsum í flokknum. Þannig má jafnvel leiða að því líkur að mikil kvenfrelsisbylgja eigi sér nú stað í Sjálfstæðisflokknum – þessum stærsta stjórnmálaflokki landsins.

Eins og til að staðfesta það hefur Brynjar Níelsson, einn meðlimur fílupúkafélags flokksins, eins og hann kallar það sjálfur, risið til varnar Haraldi: „Ég undrast mjög ofsafengin viðbrögð nokkurra flokksystkina minna við heiðarlegu svari Haraldar Benediktssonar um að hann léti gott heita ef honum yrði hafnað í prófkjöri sem áframhaldandi oddvita sjálfstæðismanna í Norðvestur kjördæmi.“

Brynjar segir þetta hafa legið fyrir í marga mánuði

„Þessi upphlaup núna eru augljóslega til þess að hafa áhrif niðurstöðu prófkjörsins. Freki kallinn í þessari sögu er ekki Haraldur Benediktsson. Hann gerði ekkert annað en að segja satt aðspurður. Það er allur glæpurinn,“ segir Brynjar á vinsælli Facebook-síðu sinni. 

Páll Magnússon er hjartanlega sammála Brynjari, upphlaupið vegna afarkosta Haralds að fái hann ekki efsta sætið sé hann hættur, sé illskiljanlegt. Páll vekur athygli á því að svo gæti farið að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins verði nánast einungis skipaður lögfræðingum.Vísir/vilhelm

Páll Magnússon oddviti flokksins í Suðurkjördæmi tekur hjartanlega undir þetta sjónarmið og bætir því við að Haraldur sé bóndi sem vilji leiða lista Sjálfstæðismanna í sínu kjördæmi. Og segir að vel megi á benda á þá athyglisverðu staðreynd að í 

„fyrsta skipti í sögunni gæti ein stétt/starfsgrein - lögfræðingar - náð meirihluta í heilum þingflokki; m.a.s. langstærsta flokknum á þingi. Þar yrði enginn kennari, læknir, prestur, hjúkrunarfræðingur, iðnaðarmaður, verkamaður, sjómaður, verslunarmaður, skrifstofumaður, listamaður - nú eða bóndi. 

En lögfræðingarnir gætu orðið 8-10 í einum og sama þingflokknum!“ segir Páll á sinni Facebook-síðu og lætur broskall sem deplar auga fylgja þeirri ábendingu.

Misráðið örþrifaráð

Haraldur sjálfur er hissa á þessum látum Sjálfstæðiskvenna vegna afstöðu sinnar en þá gerist hið óvænta að Andrés Magnússon, sérlegur fulltrúi Davíðs Oddssonar ritstjóra á Morgunblaðinu, setur ofan í við Brynjar á hans vettvangi. En Morgunblaðið hefur verið talið draga taum þeirra sem eru skyldastir Miðflokksmönnum í þankagangi innan Sjálfstæðisflokksins, svo mjög að Davíð hefur verið vændur um að styðja Miðflokk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. En við nákvæmlega þá línu hafa Brynjar, Páll og Haraldur verið kenndir, fremur en nokkuð annað.

Andrés bendir af nokkrum myndugleik á að Sjálfstæðisflokkurinn boði nú til prófkjörs þar sem flokksmenn eru beðnir um að stilla frambjóðendunum upp í röð. Allt er það samkvæmt skipulagsreglum flokksins og öllum ljóst hvernig það gengur fyrir sig, þar á meðal frambjóðendunum, sem bjóða sig fram upp á þau býti.

„Nú vill Haraldur spyrja kjósendur í prófkjörinu einhverrar allt annarar spurningar, þ.e.a.s. „Viltu mig í 1. sæti eða ekki? — Ef ekki, þá hef ég engan áhuga á þér og þínum skoðunum á því hvernig listi flokksins er skipaður.“

Andrés segir jafnframt: „Hann um það, en ég held að þetta sé einstaklega misráðið örþrifaráð hjá Halla, því jafnvel þó þetta herbragð lukkist þá hefur hann veikt umboð sitt. Það eitt, að hann grípi til þess á lokametrunum, bendir hins vegar til þess að hann meti stöðu sína svo tæpa, að hann hafi engu að tapa.“

Hættuspil Haralds

Andrés segir merg máls þó þann að stjórnmálamenn sem vilji setja kjósendum afarkosti, misskilji algerlega samband sitt við umbjóðendur. „Snúa því á haus og telja sig þess umkomna að segja kjósendum fyrir verkum. Það er óklókt, mikið hættuspil raunar, því nema þar sé á ferð einhver einstakur leiðtogi og landsfaðir láta kjósendur slíkt ávallt sem vind um eyru þjóta og refsa frambjóðendum oftar en ekki fyrir glöpin.“

Brynjar fellst á þetta að hluta til, segir þarna réttmæt sjónarmið en segir á móti að ekki sé um neitt nýtt að ræða hjá Haraldi og menn séu ekki bundnir af niðurstöðu prófkjörs.

Heitar umræður geysa um þessi mál á Facebooksíðu Brynjars.


Tengdar fréttir

Þór­dís og Haraldur etja kappi í Norð­vestur­kjör­dæmi

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi stendur nú yfir og því lýkur á laugardaginn, 19. júní. Fyrri dagur prófkjörs er í dag en Norðvesturkjördæmi er síðasta kjördæmið til þess að halda prófkjör fyrir komandi Alþingiskosningar.

Haraldur þiggur ekki annað sæti ef hann tapar odd­vita­slagnum

Haraldur Bene­dikts­son, odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins í Norð­vestur­kjör­dæmi, mun ekki þiggja annað sæti á lista flokksins í kjör­dæminu ef hann tapar bar­áttunni um odd­vita­sætið við Þór­dísi Kol­brúnu Reyk­fjörð Gylfa­dóttur í próf­kjöri flokksins um næstu helgi.

Haraldur hissa á við­brögðum Sjálf­stæðis­kvenna

Viðbrögð Sjálfstæðiskvenna við yfirlýsingu Haraldar Benediktssonar ,um að hann muni ekki taka sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi hljóti hann ekki kjör í oddvitasæti, komu Haraldi í opna skjöldu. Hann segist ekki hafa leynt því að hann hyggist ekki sitja á listanum beri Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sigur úr bítum í oddvitabaráttunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×