Þetta eru fyrstu alvarlegu átök sem hafa brotist út á svæðinu frá því að vopnahléssamningur var gerður þann 21. maí síðastliðinn.
Átökin í síðasta mánuði stóðu yfir í ellefu daga og létust þá að minnsta kosti 256 Palestínumenn og 13 Ísraelsmenn.
Í yfirlýsingu frá ísraelska varnarliðinu, IDF, segir að herþotur þess hafi sprengt herstöðvar Hamas-samtakanna í borginni Khan Yunis á Gasa-svæðinu. Ísraelar fullyrða að í herstöðinni hafi farið fram hryðjuverkastarfsemi og að IDF væri reiðubúið að hefja átök aftur af fullum krafti „í ljósi áframhaldandi hryðjuverka frá Gasa-svæðinu“.
Erlendir fjölmiðlar sem eiga sér heimildarmenn innan Hamas-samtakanna segja að enginn hafi slasast í loftárásunum í kvöld.
Ísraelsmenn segja þá að íkveikjusprengjurnar sem voru sendar frá Gasa-svæðinu með blöðrum hafi kveikt að minnsta kosti tuttugu elda á ökrum í suðurhluta landsins.
Fréttin hefur verið uppfærð.