Körfubolti

NBA dagsins: Sá besti var rekinn snemma í sturtu á meðan sá „gamli“ var óstöðvandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Paul fór fyrir liði Phoenix Suns í nótt en liðið hefur unnið sjö leiki í röð í úrslitakeppninni.
Chris Paul fór fyrir liði Phoenix Suns í nótt en liðið hefur unnið sjö leiki í röð í úrslitakeppninni. AP/David Zalubowski

Það þarf að fara 32 ár aftur í tímann til að finna mikilvægasta leikmann NBA deildarinnar í sömu stöðu og Nikola Jokic lenti í þegar tímabilið hans endaði í nótt.

Jokic og félagar í Denver Nuggets var sópað í sumarfrí af Phoenix Suns en Suns vann fjórða leikinn með sjö stiga mun í nótt, 125-118. Milwaukee Bucks jafnaði aftur á móti einvígið á móti Brooklyn Nets með öðrum sigri sínum í röð.

Denver fékk enga hjálp frá mikilvægasta leikmanni deildarinnar síðustu fimmtán mínútur leiksins eftir að Jokic var rekinn í sturtu fyrir of harkalegt brot að mati dómara. Það voru reyndar ekki allir sáttir við þann dóm og kannski kom þar í bakið á honum að vera ekki bandarískur.

Fram að brottrekstrinum var Jokic með 22 stig, 11 fráköst og 4 stoðsendingar á 28 mínútum. Hann var með 29,8 stig, 11,6 fráköst og 5,0 stoðsendingar að meðaltali í úrslitakeppninni en hafði verið með 26,4 stig, 10,8 fráköst og 8,3 stoðsendingar að meðaltali í deildarkeppninni.

Jokic er fyrsti mikilvægasti leikmaðurinn sem sópað út úr úrslitakeppninni síðan að Magic Johnson og félagar í Los Angeles Lakers töpuðu 4-0 á móti Detroit Pistons í úrslitaeinvíginu 1989.

Chris Paul hélt áfram að spila frábærlega en þessi 36 ára gamli bakvörður nýtti 14 af 19 skotum sínum í nótt og endaði með 37 stig og 7 stoðsendingar. Hann var með 25,5 stig, 10,3 stoðsendingar, 62 prósent skotnýtingu og 100 prósent vítanýtingu í einvíginu á móti Denver.

Brooklyn Nets er búið að missa niður 2-0 forystu á móti Milwaukee Bucks en liðið er líka búið að missa tvær stórstjörnu í meiðsli. James Harden tognaði á fyrstu mínútunni i í fyrsta leiknum og Kyrie Irving meiddist illa á ökkla í gær. Nú stendur Kevin Durant einn eftir.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá leikjunum tveimur í gær og nótt. Þar eru einnig viðtöl við þá Chris Paul og Giannis Antetokounmpo sem báðir voru í sigurliði í nótt.

Klippa: NBA dagsins (frá 13. júní 2021)
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×