Innlent

Starfsáætlun Alþingis tekin úr sambandi

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis.

Starfsáætlun Alþingis hefur verið tekin úr sambandi og unnið er að samkomulagi um þinglok. 

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, greindi frá því við upphaf þingfundar að forsætisnefnd hefði samþykkt að fella starfsáætlun þinsins úr gildi. Tilhögun nefndar- og þingfunda mun því ráðast af aðstæðum á næstu dögum.

Steingrímur benti á að nefndir væru enn að störfum og að afgreiða mál. Yfirgnæfandi líkur væru á því að þinghald standi fram yfir það sem áætlunin gerði ráð fyrir, eða fram yfir fimmtudag.

Ekki hefur náðst samkomulag um þinglok og þau mál sem á að klára á síðustu metrum kjörtímabilsins. Þingflokksformenn funduðu í hádeginu í dag og munu funda aftur um þau mál síðdegis.

Hátt í fimmtíu stjórnarfrumvörp eru enn í nefndum og ljóst er að ekki gefst tími til þess að klára þau öll. Óvissa er um framgang fjölda stórra og umdeildra mála og má þar til dæmis nefna frumvörp um hálendisþjóðgarð, aflglæpavæðingu neysluskammta, breytingar á stjórnarskrá og breytingar á áfengislöggjöf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×