Sport

Hin hollenska Hassan setti heims­met á heima­velli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tími dagsins hjá Hassan. Um heimsmet er að ræða.
Tími dagsins hjá Hassan. Um heimsmet er að ræða. AFP

Sif Hassan sló í dag heimsmetið í 10.000 metra hlaupi kvenna. Mót fer fram á heimavelli Hassan í Hengelo í Hollandi.

Hassan hljóp metrana 10.000 á 29:06,82 mínútum og bætti met Almaz Ayana frá Eþíópíu um rúmar tíu sekúndur. Metið setti Ayana á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016.

Hin 28 ára gamla Hassan fæddist einnig í Eþíópíu en er nú búsett í Hollandi og með hollenskan ríkisborgararétt. Hún er ríkjandi heimsmeistari frá HM í Doha árið 2019.

„Það er draumi líkast að ná heimsmetinu hér í Hengelo. Þetta er staðfesting á því hversu mikið ég hef lagt að mér fyrir Ólympíuleikana í Tókýó. Er ég afar ánægð að hafa slegið metið á heimavelli fyrir framan mitt stuðningsfólk,“ sagði Hassan að hlaupinu loknu.

Hassan á einnig heimsmet í míluhlaupi, fimm kílómetra götuhlaupi og klukkutímahlaupi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×