Breska ríkisútvarpið greinir frá því að þessi afríska risapokarotta ætli nú að njóta þess sem eftir er af ævinni eftir að hafa þefað uppi 71 jarðsprengju og aðrar ósprungnar sprengjur í Kambódíu.
Talið er að hátt í sex milljónir jarðsprengja séu grafnar víðs vegar um Kambódíu eftir borgarastyrjöld sem geisaði í landinu á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.
Haft er eftir Malen, þjálfara rottunnar knáu, að tekið sé að hægjast á Magawa og því sé best að „virða óskir hans“ um áhyggjulaust ævikvöld. Rottur á borð við Magawa verða að meðaltali um sjö ára gamlar.
Magawa var sérstaklega þjálfaður af belgísku samtökunum Apopo, sem eiga höfuðstöðvar í Tansaníu og sérhæfa sig í því að þjálfa rottur á borð við Magawa til að leita uppi jarðsprengjur. Þá eru rotturnar einnig þjálfaðar til að finna berkla í fólki.
Samkvæmt samtökunum er Magawa ein sú besta rotta sem notið hefur við í sprengjuleitargeiranum og í síðasta mánuði var honum veitt gullmedalía frá PDSA-samtökunum, sem eru bresk góðgerðasamtök stofnuð utan um velferð gæludýra.