Erlent

Býðst til að segja af sér vegna barna­níðs­mála innan kirkjunnar í Þýska­landi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Um fjórðungur Þjóðverja tilheyrir kaþólsku kirkjunni.
Um fjórðungur Þjóðverja tilheyrir kaþólsku kirkjunni. epa/Armando Babani

Erkibiskupinn af Munchen hefur boðist til þess að segja af sér vegna fjölda kynferðisbrotamála sem komið hefur upp innan kaþólsku kirkjunnar í Þýskalandi. Páfinn er sagður vera að íhuga boðið.

Hann hefur sent tvo biskupa til Kölnar til að rannsaka kynferðisbrotin.

Rannsókn sem kaþólska kirkjan stóð sjálf fyrir leiddi í ljós að fleiri en 3,600 börn voru misnotuð kynferðislega af kaþólskum prestum á tímabilinu 1946 til 2014. Aðeins um 38 prósent gerandanna voru ákærðir og enn færri refsað. 

Flest fórnarlambanna voru drengir og meira en helmingur 13 ára eða yngri. Í einu af hverjum sex tilvikum var um að ræða nauðgun.

Í lausnarbréfi sínu segist kardinálinn Reinhard Marx rannsóknir undanfarinna ára hafa leitt í ljós fjölda persónulegra yfirsjóna og stjórnunarlegra mistaka. Þá talar hann einnig um stofnana- og kerfisbundinn misbrest í því hvernig kirkjan hefur tekið á kynferðisbrotamálum.

Marx segir kirkjuna komna í „öngstræti“ en að með brotthvarfi hans megi ef til vill „byrja upp á nýtt“. Að sögn Damien McGuinness, fréttamanns BBC í Berlín, er Marx þekktur fyrir að vera fremur frjálslyndur og hafa oftsinnis kallað eftir umbótum.

Kardinálinn Rainer Maria Woelki, erkibiskupinn af Köln, hefur sætt harðri gagnrýni í tengslum við kynferðisbrotahneykslið en óháð rannsókn hefur leitt í ljós að fjölda brota sem var framinn í umdæmi hans. Samkvæmt rannsóknarskýrslunni eru fórnarlömbin að minnsta kosti 300.

Woelki hefur hins vegar neitað að segja af sér; það væri „auðvelda leiðin“ en með því að sitja áfram í embætti axlaði hann ábyrgð á því ferli sem hann hefði hafði í Köln; að leiða sannleikann í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×