Innlent

Borgar­búar skyldugir til þess að flokka eld­hús­úr­gang á næstu árum

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Sérstök söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi verður sett á laggirnar í Reykjavík í september.
Sérstök söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi verður sett á laggirnar í Reykjavík í september. Reykjavíkurborg

Sérstök söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi mun hefjast í Reykjavík í september. Byrjað verður í fjórum hverfum borgarinnar en stefnt er á að geta boðið öllum íbúum þjónustuna fyrir mitt ár 2022. Stefnt er að því að brúna tunnan verði orðin að skyldu innan nokkurra ára.

Reykjavíkurborg tók ákvörðun árið 2015 að fara í sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi. Þegar farið var að vinna þarfagreiningu fyrir gas- og jarðgerðarstöðina GAJA óskaði Reykjavíkurborg eftir því að stöðin gæti tekið við sérsöfnuðum lífrænum eldhúsúrgangi frá íbúum í Reykjavík, án þess að hann blandist við annan úrgang. Umhverfis- og heilbrigðisráð Reykjavíkurborgar samþykkti síðan á fundi 17. mars síðastliðinn að innleiða brúna tunnu til að safna í flokkuðum lífrænum eldhúsúrgangi.

Byrjað í Grafarvogi, Grafarholti, Árbæ og Norðlingaholti

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að byrjað verði að bjóða upp á þjónustuna í Grafarvogi, Grafarholti, Árbæ og Norðlingaholti í september 2021. Auk þess verður þjónustan áfram í boði á Kjalarnesi og í Hamrahverfi, en þar hefur söfnunin þegar verið hafin sem hluti af tilraunaverkefni.

Stefnt er að því að geta boðið íbúum í öllum hverfum borgarinnar upp á brúna tunnu fyrir mitt ár 2022.

Brúna tunnan hefur verið tekin í notkun á Kjalarnesi og í Hamrahverfi. Hún verður aðgengileg öllum borgarbúum um mitt ár 2022.Reykjavíkurborg

Sérsöfnun hámarkar gæðin - flokkun heimila góð

Í tilkynningu segir að tilgangurinn með sérsöfnun sé að hámarka gæði afurða sem hægt er að vinna. Auk þess að vinna metangas, verði unninn jarðvegsbætir sem stenst kröfur um notagildi og hámarksinnihald mengunarefna. Þannig fást fjölbreyttari möguleikar á endurnýtingu næringarefna sem finnast í lífrænum eldhúsúrgangi.

Þá segir að tilraunaverkefni með sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi á Kjalarnesi og í Hamrahverfi hafi sýnt fram á að flokkun heimila sé almennt góð og að lítið sé um aðskotahluti í brúnu tunnunni.

Verður hægt að halda kostnaði vegna sorphirðu óbreyttum

Í fyrstu verður boðið upp á brúna tunnu sem frístandandi 140 lítra ílát. En það er sama stærð og á spartunnu sem hefur staðið íbúum til boða og er minni en hefðbundin grá tunna. Þessi stærð hentar við flestar gerðir húsnæðis í borginni. Einnig verður boðið upp á að sækja lífrænan eldhúsúrgang í djúpgáma sem hafa verið að ryðja sér til rúms við fjölbýli undanfarin ár.

Gjaldið fyrir brúnu tunnuna án fimmtán metra gjalds verður 10.700 krónur á ári og verður tunnan tæmd á tveggja vikna fresti að jafnaði. Hægt verður að breyta úr 240 lítra grátunnu í spartunnu og því hægt að halda kostnaði vegna sorphirðu óbreyttum.

Gjald vegna spartunnu án fimmtán metra gjalds er 18.400 krónur. Það gerir gjald vegna brúntunu og spartunnu samtals 29.199 krónur á ári. Það er sama gjald og er innheimt fyrir eina 240 lítra gráa sorptunnu í dag.

Brúna tunnan mun kosta 10.700 krónur á ári og vera tæmd á tveggja vikna fresti.Reykjavíkurborg

Brúna tunnan skylda innan nokkurra ára

Breytingar þessar eru í takti við loftslagsstefnu Reykjavíkurborgar. Í aðgerðaráætlun borgarinnar í loftslagsmálum 2021-2025 er hringrásarhugsun ein af megináherslum áætlunarinnar. Ein af fimmtán aðgerðum áætlunarinnar er að urðun verði hætt og mótuð verði heildstæð aðgerðaráætlun um hringrás og endurvinnslu til að styðja við sjálfbærari meðhöndlun úrgangs.

Til að byrja með verður þjónustan valkvæð og er byrjað að taka á móti pöntunum á ekkirusl.is. Einnig er hægt að senda póst á sorphirda@reykjavik.is. Gert er ráð fyrir því að brúna tunnan verði orðin að skyldu á öllum heimilum innan nokkurra ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×