Handbolti

Aron Rafn aftur heim í Hauka

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Rafn Eðvarðsson snýr aftur til Hauka í sumar eftir átta ára fjarveru.
Aron Rafn Eðvarðsson snýr aftur til Hauka í sumar eftir átta ára fjarveru. getty/Friso Gentsch

Markvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson kemur heim í sumar og gengur í raðir Hauka. Hann hefur skrifað undir þriggja ára samning við félagið.

Aron er uppalinn hjá Haukum og lék með liðinu til 2013 þegar hann fór til Eskilstuna Guif í Svíþjóð. Hann lék með Álaborg í Danmörku 2015-16 og Bietigheim í Þýskalandi 2016-17.

Aron kom heim sumarið 2017 og gekk í raðir ÍBV. Hann varð þrefaldur meistari með Eyjaliðinu áður en hann hélt aftur til Þýskalands og samdi við Hamburg. Hann lék með liðinu í tvö ár en gekk svo aftur í raðir Bietigheim í sumar.

„Ég er spenntur að koma aftur heim í Hauka eftir 8 ára fjarveru. Búið að vera skemmtilegt ferðalag hjá mér og glaður að koma aftur heim á Ásvelli og spila fyrir Hauka,“ sagði Aron í fréttatilkynningu frá Haukum.

Hjá Haukum leysir Aron Björgvin Pál Gústavsson af hólmi en hann fer til Vals eftir tímabilið. Fyrir hjá Haukum er Andri Sigmarsson Scheving og þá snýr Stefán Huldar Stefánsson aftur til félagsins eftir lánsdvöl hjá Gróttu.

Aron, sem er 31 árs, hefur leikið 84 landsleiki og fór með íslenska landsliðinu á fimm stórmót.

Aron varð Íslandsmeistari með Haukum 2008, 2009 og 2010, bikarmeistari 2010 og 2012 og deildarmeistari 2009, 2010, 2012 og 2013.

Haukar eru þegar búnir að tryggja sér deildarmeistaratitilinn í Olís-deildinni. Þeir mæta botnliði ÍR í lokaumferðinni á morgun.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×