Minnst 26 milljónir kórónuveirutilfella hafa verið staðfest á Indlandi en daglegum tilfellum hefur fækkað nokkuð samkvæmt opinberum tölum. Í gær voru skráð rúmlega 222 þúsund ný smit og 4.454 dauðsföll.
Einungis hafa fleiri tilfelli verið staðfest í Bandaríkjunum. Þá er Indland í þriðja sæti á heimsvísu þegar kemur að dauðsföllum, á eftir Bandaríkjunum og Brasilíu.
Greint var frá því í lok apríl að 200 þúsund hafi látist á Indlandi vegna Covid-19 og hefur fjöldinn því aukist um helming á innan við mánuði.
102 þúsund dáið á 26 dögum
Heilbrigðisyfirvöld þar í landi glíma nú við mannskæða aðra bylgju faraldursins sem hefur borið heilbrigðiskerfið ofurliði á síðustu vikum. Víða eru dæmi um að sjúkrahús eigi erfitt með að taka á móti miklu flæði kórónuveirusjúklinga á sama tíma mikilvæg lyf og súrefnisbirgðir eru af skornum skammti.
Nærri helmingur kórónuveirudauðsfalla á Indlandi hafa átt sér stað á síðustu þremur mánuðum. Á síðustu 26 dögum hafa heilbrigðisyfirvöld skráð rúm 102 þúsund dauðsföll.
Sumir sérfræðingar telja að tala daglegra andláta eigi enn eftir að hækka.
„Við gerum ráð fyrir að það sé töf milli þess að fjöldi tilfella og fjöldi dauðsfalla nái hámarki. Við vitum einnig að það munar miklu á skráningu milli ríkja og einnig milli þéttbýlli og strjálbýlli svæða,“ sagði stærðfræðingurinn Murad Banaji, sem fylgst hefur með þróun faraldursins á Indlandi, í samtali við breska ríkisútvarpið BBC.