Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - KA 0-1 | Enn bíður Stjarnan fyrsta sigursins Valur Páll Eiríksson skrifar 24. maí 2021 21:45 Hallgrímur Mar fagnar með Elfari Árna en sá síðarnefndi skoraði sigurmark leiksins. Vísir/Hulda Margrét KA vann 1-0 sigur á Stjörnunni í 6. umferð Pepsi Max-deildar karla á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld. Stjarnan leitar enn að sínum fyrsta sigri í deildinni. Leikur kvöldsins fór nokkuð rólega af stað og færin létu á sér standa. Þannig var það raunar mestallan fyrri hálfleikinn. Stjörnumaðurinn Þorsteinn Már Ragnarsson fékk gott færi um miðjan fyrri hálfleik en tókst ekki að nýta það og var að auki dæmdur brotlegur svo það hefði ekki staðið. Þorsteinn var aftur á ferðinni þegar hann vann boltann af Hauki Heiðar Haukssyni og komst í álitlega stöðu en slæm síðasta snerting gerði að verkum að Steinþór Már Auðunsson, markvörður KA, komst inn í. Markalaust var því í hléi. Hallgrímur Mar Steingrímsson fékk algjört dauðafæri snemma í síðari hálfleiknum þegar hann var einn á auðum sjó á teig Stjörnunnar en lét Harald Björnsson verja frá sér. Varslan var góð hjá Haraldi en Hallgrímur hefði þó átt að gera betur. Stjarnan var sterkari aðilinn á stórum köflum úti á velli en flestar marktilraunir liðsins voru þó úr hálffærum eða af löngu færi. Steinþór Már Auðunsson var ávallt vandanum vel vaxinn í markinu og stefndi í markalaust jafntefli. Varamaðurinn Elfar Árni Aðalsteinsson í liði KA var hins vegar sá sem forðaði því. Boltinn féll fyrir hann í teig Stjörnumanna í kjölfar fyrirgjafar Hallgríms Mar og Elfar afgreiddi boltann vel af stuttu færi tæpum tíu mínútum fyrir leikslok. Stjörnumenn gerðu hvað þeir gátu að jafna leikinn á lokakaflanum en varð ekki erindi sem erfiði. KA-menn unnu 1-0 sigur og eru þar með komnir í 13 stig í öðru sæti, þremur stigum frá toppliði Vals sem einnig vann í kvöld. Stjarnan er sem fyrr með tvö stig á botni deildarinnar og leitar síns fyrsta sigurs. Af hverju vann KA? Norðanmenn nýttu annað af tveimur tækifærum sínum í leiknum og voru mjög þéttir gegn Stjörnuliði sem gekk illa að skapa sér almennileg marktækifæri. Hverjir stóðu upp úr? Steinþór Már Auðunsson varði þónokkur skot í leiknum, mest af þeim voru svokallaðar skylduvörslur en það þarf víst að klára þær líka. Leikurinn í heild var nokkuð flatur og fátt um yfirburðaframmistöður. Sérstakt hrós fer þó á Silfurskeiðina sem söng hástöfum allan leikinn þrátt fyrir mótlæti Stjörnumanna þessa dagana. Hvað gekk illa? Stjörnumönnum gekk illa með hornspyrnur sínar. Þeir fengu um 10 stykki en engin varð að markógn. Þá gekk heimamönnum illa almennt að skapa sér marktækifæri og fjölmörg skot þeirra í leiknum voru úr hálffærum og af löngu færi. Hvað gerist næst? Arnar Grétarsson, þjálfari KA, mætir sínum gömlu lærisveinum í Breiðabliki er KA fer í Kópavoginn næsta laugardag. Stjarnan sækir Fylki heim í Árbæ á sunnudag. Ánægður en fannst spilamennskan ekkert spes Arnar segir sína menn hafa spilað betur en í dag en er þó sáttur við stigin þrjú.Vísir/Hulda Margrét „Ég er ánægður með þrjú stig en mér fannst spilamennskan ekkert spes. Við vorum að tapa boltanum oft illa í fyrri hálfleik, halda boltanum illa. Ég held að við getum bætt okkur töluvert fótboltalega séð.“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari KA, eftir leik. „Það er alltaf gott að fá þrjú stig, ég tala ekki um þegar þú ert ekki að spila frábærlega. Það er það sem skiptir máli í þessu. Það er búin að vera mikil törn og við spilum ekki við Blikana fyrr en eftir viku svo það er mikilvægt að ná í þessi þrjú stig.“ sagði Arnar og bætti við: „Ég er mjög sáttur við þessa stigasöfnun. Við erum búnir að lenda í miklum skakkaföllum og mér finnst heilt yfir þokkalegur bragur á okkur.“ sagði Arnar en KA er með 13 stig eftir sex leiki, þremur á undan uppeldisfélagi hans Blika sem þeir mæta í næsta leik. Náum ekki að skora, hinir skoruðu, málið dautt Þorvaldur Örlygsson var að vonum ekki sá glaðasti í leikslok.Vísir/Hulda Margrét „Mér fannst við sterkari aðilinn og betra liðið og við hefðum átt að vinna þennan leik.“ sagði stuttorður Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leik. Aðspurður um hvað hefði vantað upp á að Stjörnumenn tækju þrjú stig segir Þorvaldur: „Að boltinn fari inn fyrir línuna. Það segir sig sjálft, þú veist það jafn vel og ég. Um leið og þú spurðir spurningarinnar þá vissiru það. Það er það sem er, við náum ekki að koma boltanum yfir hvítu línuna.“ „Leikurinn í dag var bara þannig að við vorum betri aðilinn og náum ekki að skora. Hinir skoruðu. Málið dautt.“ sagði Þorvaldur. Fréttamaður impraði þá eftir frekari svörum um það af hverju KA-menn hefðu náð að setja boltann yfir línuna en ekki Stjarnan. „Hættu þessu, þetta eru svo leiðinlegar spurningar. Auðvitað vitum við það að þeir vörðu vel línuna sína, við brenndum færum og vorum klaufar í vörninni. Málið dautt.“ sagði Þorvaldur. Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur. Pepsi Max-deild karla Stjarnan KA
KA vann 1-0 sigur á Stjörnunni í 6. umferð Pepsi Max-deildar karla á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld. Stjarnan leitar enn að sínum fyrsta sigri í deildinni. Leikur kvöldsins fór nokkuð rólega af stað og færin létu á sér standa. Þannig var það raunar mestallan fyrri hálfleikinn. Stjörnumaðurinn Þorsteinn Már Ragnarsson fékk gott færi um miðjan fyrri hálfleik en tókst ekki að nýta það og var að auki dæmdur brotlegur svo það hefði ekki staðið. Þorsteinn var aftur á ferðinni þegar hann vann boltann af Hauki Heiðar Haukssyni og komst í álitlega stöðu en slæm síðasta snerting gerði að verkum að Steinþór Már Auðunsson, markvörður KA, komst inn í. Markalaust var því í hléi. Hallgrímur Mar Steingrímsson fékk algjört dauðafæri snemma í síðari hálfleiknum þegar hann var einn á auðum sjó á teig Stjörnunnar en lét Harald Björnsson verja frá sér. Varslan var góð hjá Haraldi en Hallgrímur hefði þó átt að gera betur. Stjarnan var sterkari aðilinn á stórum köflum úti á velli en flestar marktilraunir liðsins voru þó úr hálffærum eða af löngu færi. Steinþór Már Auðunsson var ávallt vandanum vel vaxinn í markinu og stefndi í markalaust jafntefli. Varamaðurinn Elfar Árni Aðalsteinsson í liði KA var hins vegar sá sem forðaði því. Boltinn féll fyrir hann í teig Stjörnumanna í kjölfar fyrirgjafar Hallgríms Mar og Elfar afgreiddi boltann vel af stuttu færi tæpum tíu mínútum fyrir leikslok. Stjörnumenn gerðu hvað þeir gátu að jafna leikinn á lokakaflanum en varð ekki erindi sem erfiði. KA-menn unnu 1-0 sigur og eru þar með komnir í 13 stig í öðru sæti, þremur stigum frá toppliði Vals sem einnig vann í kvöld. Stjarnan er sem fyrr með tvö stig á botni deildarinnar og leitar síns fyrsta sigurs. Af hverju vann KA? Norðanmenn nýttu annað af tveimur tækifærum sínum í leiknum og voru mjög þéttir gegn Stjörnuliði sem gekk illa að skapa sér almennileg marktækifæri. Hverjir stóðu upp úr? Steinþór Már Auðunsson varði þónokkur skot í leiknum, mest af þeim voru svokallaðar skylduvörslur en það þarf víst að klára þær líka. Leikurinn í heild var nokkuð flatur og fátt um yfirburðaframmistöður. Sérstakt hrós fer þó á Silfurskeiðina sem söng hástöfum allan leikinn þrátt fyrir mótlæti Stjörnumanna þessa dagana. Hvað gekk illa? Stjörnumönnum gekk illa með hornspyrnur sínar. Þeir fengu um 10 stykki en engin varð að markógn. Þá gekk heimamönnum illa almennt að skapa sér marktækifæri og fjölmörg skot þeirra í leiknum voru úr hálffærum og af löngu færi. Hvað gerist næst? Arnar Grétarsson, þjálfari KA, mætir sínum gömlu lærisveinum í Breiðabliki er KA fer í Kópavoginn næsta laugardag. Stjarnan sækir Fylki heim í Árbæ á sunnudag. Ánægður en fannst spilamennskan ekkert spes Arnar segir sína menn hafa spilað betur en í dag en er þó sáttur við stigin þrjú.Vísir/Hulda Margrét „Ég er ánægður með þrjú stig en mér fannst spilamennskan ekkert spes. Við vorum að tapa boltanum oft illa í fyrri hálfleik, halda boltanum illa. Ég held að við getum bætt okkur töluvert fótboltalega séð.“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari KA, eftir leik. „Það er alltaf gott að fá þrjú stig, ég tala ekki um þegar þú ert ekki að spila frábærlega. Það er það sem skiptir máli í þessu. Það er búin að vera mikil törn og við spilum ekki við Blikana fyrr en eftir viku svo það er mikilvægt að ná í þessi þrjú stig.“ sagði Arnar og bætti við: „Ég er mjög sáttur við þessa stigasöfnun. Við erum búnir að lenda í miklum skakkaföllum og mér finnst heilt yfir þokkalegur bragur á okkur.“ sagði Arnar en KA er með 13 stig eftir sex leiki, þremur á undan uppeldisfélagi hans Blika sem þeir mæta í næsta leik. Náum ekki að skora, hinir skoruðu, málið dautt Þorvaldur Örlygsson var að vonum ekki sá glaðasti í leikslok.Vísir/Hulda Margrét „Mér fannst við sterkari aðilinn og betra liðið og við hefðum átt að vinna þennan leik.“ sagði stuttorður Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leik. Aðspurður um hvað hefði vantað upp á að Stjörnumenn tækju þrjú stig segir Þorvaldur: „Að boltinn fari inn fyrir línuna. Það segir sig sjálft, þú veist það jafn vel og ég. Um leið og þú spurðir spurningarinnar þá vissiru það. Það er það sem er, við náum ekki að koma boltanum yfir hvítu línuna.“ „Leikurinn í dag var bara þannig að við vorum betri aðilinn og náum ekki að skora. Hinir skoruðu. Málið dautt.“ sagði Þorvaldur. Fréttamaður impraði þá eftir frekari svörum um það af hverju KA-menn hefðu náð að setja boltann yfir línuna en ekki Stjarnan. „Hættu þessu, þetta eru svo leiðinlegar spurningar. Auðvitað vitum við það að þeir vörðu vel línuna sína, við brenndum færum og vorum klaufar í vörninni. Málið dautt.“ sagði Þorvaldur. Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.