Fótbolti

„Mjög stór dagur fyrir mig og mína fjölskyldu“

Sindri Sverrisson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson fagnar marki í leik með U19-liði FCK.
Hákon Arnar Haraldsson fagnar marki í leik með U19-liði FCK. mynd/fck.dk

Hákon Arnar Haraldsson, 18 ára knattspyrnumaður frá Akranesi, hefur skrifað undir samning til fimm ára við danska stórliðið FC Köbenhavn.

Hákon hefur verið hjá FCK í tvö ár og staðið sig vel með U19-liðinu en mun frá og með næsta keppnistímabili tilheyra aðalliði félagsins.

„Þetta er mjög stór dagur fyrir mig og mína fjölskyldu. Ég er afskaplega ánægður með að hafa skrifað undir þessa framlengingu,“ segir Hákon í viðtali á vef FCK. Foreldrar hans eru Haraldur Ingólfsson og Jónína Víglundsdóttir sem bæði hafa spilað fyrir íslensku landsliðin.

Stundum erfitt en mjög skemmtilegt

Hákon viðurkennir að það hafi ekki verið auðvelt að flytja í annað land 16 ára gamall en sér ekki eftir því núna:

„Þetta hefur stundum verið erfitt, eins og til dæmis með tungumálið í byrjun. En núna er mjög gaman. Ég kann tungumálið og mamma er hér, en í sumar verð ég einn. Þetta hefur verið mjög skemmtilegt og ég hlakka til komandi ára,“ segir Hákon sem er sóknarsinnaður miðjumaður.

„Ég er búinn að læra margt. Tempóið hérna er mikið meira en á Íslandi, þjálfararnir betri og margt sem að hjálpar manni til að verða betri. Það hefur verið ánægjulegt að vera hér,“ segir Hákon, stoltur af því að vera á leið upp í aðallið FCK:

„Það hefur ekki mörgum tekist að taka þetta skref í stærsta félagi Norðurlandanna svo þetta er stór dagur fyrir mig. Ég hlakka mjög mikið til að fá að vera innan vallar á Parken fyrir framan áhorfendur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×