Wyscout tölfræðiveitan leikgreinir leiki Pepsi Max deildar karla og þar kemur oft margt forvitnilegt í ljós.
Þar sem KA tekur á móti Víkingi í fimmtu umferðinni á Dalvík í kvöld er áhugavert að skoða eina tölfræðitöflu þar sem liðin gætu ekki verið ólíkari.
Fólkið á Wyscout tekur saman svokallaðar klókar sendingar eða „smart passes“ eins og þeir nefna þetta á ensku.
Skilgreiningin á klókri sendingu er skapandi sending í gegnum vörnina sem er tilraun til að brjóta upp varnarlínu mótherjanna og skapa sínu liði forskot í viðkomandi sókn.
Á ensku er það: „A creative and penetrative pass that attempts to break the opposition's defensive lines to gain a significant advantage in attack“
Í þessum tölfræði þá eru lið KA og Víkings á sitthvorum enda töflunnar.
Ekkert félag hefur reynt fleiri klókar sendingar en KA í þessum fyrstu fjórum umferðum Pepsi Max deildar karla.
KA liðið hefur alls reynt 32 slíkar sendingar og er með mikla yfirburði. Það eru sjö fleiri en FH sem er í öðru sæti og 24 fleiri en Víkingar sem reka lestina. Víkingsliðið hefur nefnilega aðeins fengið skráðar á sig átta klókar sendingar í þessum fjórum fyrstu leikjum. Það er fjórum færra en næsta lið sem er ÍA.
41 prósent þessara sendinga hafa heppnast hjá KA-mönnum sem er það fimmta besta en Valsmenn reyna kannski fáar klókar sendingar (13 í 4 leikjum) en 54 prósent þeirra hafa heppnast. Þannig hafa líka helmingur þessa átta klóku sendinga hjá Víkingum ratað rétta leið sem skilar liðinu öðru til þriðja sæti í skilvirkni með Fylki.
- Flestar klókar sendingar í fyrstu fjórum umferðum Pepsi Max deildar karla: (Tölfræði frá Wyscout)
- 1. KA 32
- 2. FH 25
- 3. Stjarnan 23
- 4. HK 17
- 5. KR 16
- 6. Breiðablik 15
- 7. Leiknir 14
- 7. Fylkir 14
- 7. Keflavík 14
- 10. Valur 13
- 11. ÍA 12
- 12. Víkingur 8
Leikur KA og Víkings hefst klukkan 18.00 og verður hægt að horfa á hann beint á stod2.is.
Leikur Breiðabliks og Stjörnunnar verður sýndur beint á Stöð 2 Sport frá klukkan 19.05 en á undan verður Pepsi Max upphitun á sömu stöð frá klukkan 18.45. Eftir leikinn verður síðan Pepsi Max Stúkan á dagskrá.
Það verður einnig hægt að horfa á hina þrjá leiki kvöldsins í beinni á stod2.is en það eru eftirtaldir leikir: HK-ÍA (klukkan 18.00), Fylkir-Keflavík (20.00) og Valur-Leiknir R.(20.15).
Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.