Umfjöllun og viðtöl: KR - Valur 2-3 | Valsmenn sóttu sigur á Meistaravelli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valsmenn eru komnir með tíu stig eftir fyrstu fjórar umferðirnar í Pepsi Max-deild karla.
Valsmenn eru komnir með tíu stig eftir fyrstu fjórar umferðirnar í Pepsi Max-deild karla. vísir/hulda margrét

Valur vann 2-3 sigur á KR þegar þessi sigursælustu lið í íslenskri fótboltasögu áttust við á Meistaravöllum í stórleik 4. umferðar Pepsi Max-deildar karla í kvöld.

Sebastian Hedlund, Haukur Páll Sigurðsson og Sigurður Egill Lárusson skoruðu mörk Íslandsmeistaranna en þau komu öll á tíu mínútna kafla í kringum hálfleikinn. Guðjón Baldvinsson og Pálmi Rafn Pálmason skoruðu mörk KR-inga sem voru lengst af sterkari aðilinn í leiknum en uppskáru ekkert fyrir góða frammistöðu.

KR hefur tapað báðum heimaleikjum sínum á tímabilinu og gengið á Meistaravöllum hefur ekkert lagast frá því í fyrra. Valsmenn hafa aftur á móti fengið fjögur stig í fyrstu tveimur útileikjum sínum, gegn KR-ingum og FH-ingum.

KR byrjaði leikinn miklu mun betur. Kennie Chopart og Atli Sigurjónsson voru mjög áberandi í sóknarleik KR-inga sem fór að mestu fram hægra megin á vellinum. KR-ingar herjuðu á Johannes Vall, vinstri bakvörð Valsmanna, sem átti í mestu vandræðum framan af.

Fyrsta mark leiksins kom einmitt eftir frábæran sprett Kennies fram hægri kantinn. Hann sendi fyrir á Pálma Rafn Pálmason sem átti skot sem fór af höfðinu af Guðjóni Baldvinssyni og í netið. Skallinn var laflaus en Hannes Þór Halldórsson missti boltann klaufalega undir sig.

KR-ingar héldu áfram að sækja og fengu nokkur ágætis tækifæri. Pálmi komst næst því að skora þegar skot hans fór rétt framhjá á 17. mínútu.

Valsmenn unnu sig inn í leikinn eftir því sem á fyrri hálfleikinn leið. Christian Köhler átti skot beint úr aukaspyrnu sem Beitir Ólafsson varði í slá á 39. mínútu. Fimm mínútum síðar jafnaði Sebastian með skalla eftir hornspyrnu Kaj Leos í Bartalsstovu.

Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og á 48. mínútu komust þeir yfir þegar Haukur Páll hamraði boltann í netið fyrir utan vítateig.

Sex mínútum síðar vann Patrick Pedersen boltann af Grétari Snæ Gunnarssyni, fann Kristin Frey Sigurðsson sem labbaði framhjá Finni Tómasi Pálmasyni, slapp í gegn og renndi boltanum fyrir á Sigurð Egil sem gat ekki annað en skorað. Fjórum mínútum síðar átti Kaj Leó skot í slá beint úr aukaspyrnu.

Á 59. mínútu gerði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, tvöfalda skiptingu og setti Stefán Árna Geirsson og Kjartan Henry Finnbogason inn á. Þetta var fyrsti leikur þess síðarnefnda fyrir KR síðan 2014. Þremur mínútum eftir að Kjartan Henry kom inn á átti hann skalla eftir hornspyrnu Atla sem Hannes varði.

Á 68. mínútu fékk KR vítaspyrnu eftir að Pedersen braut klaufalega á Stefáni Árna. Pálmi fór á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi. KR-ingar héldu áfram að sækja og á 76. mínútu skallaði Stefán Árni framhjá úr dauðafæri.

Sóknirnar buldu enn á marki Vals og þegar átta mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma fékk Óskar Örn Hauksson dauðafæri en Hannes varði skot hans frábærlega og tryggði Valsmönnum stigin þrjú.

Af hverju vann Valur?

KR-ingar voru sterkari aðilinn lengst af og spiluðu sérstaklega vel í fyrri hálfleik. Valsmenn voru hins vegar algjörlega miskunnarlausir og nýttu sín tækifæri vel. Valur var ekki lengi ofan á í leiknum en nýtti þann kafla fullkomlega.

Hverjir stóðu upp úr?

Fremstu leikmenn Vals, Kaj Leo, Kristinn Freyr, Sigurður Egill og Pedersen, sáust ekki mikið á löngum köflum en sýndu allir hversu góðir þeir eru í mörkunum. Haukur Páll var óþreytandi á miðjunni og kom Val yfir með glæsilegu marki.

Þá var Hedlund traustur í miðri vörn Vals og skoraði jöfnunarmarkið mikilvæga og Hannes tryggði gestunum sigurinn með vörslunni frá Óskari undir lokin.

Kennie var besti maður vallarins, sérstaklega í fyrri hálfleik. Atli var einnig kröftugur þá sem og Ægir Jarl Jónasson og Pálmi.

Hvað gekk illa?

Miðverðir KR litu mjög illa út í þriðja marki Vals, þegar Grétar tapaði boltanum og Finnur Tómas var engin fyrirstaða fyrir Kristin. Annan heimaleikinn í röð fékk KR á sig þrjú mörk sem gengur ekki til lengdar.

Hannes gerði sig sekan um slæm mistök í fyrra marki KR og þá var Vall í miklum vandræðum, sérstaklega í fyrri hálfleik.

Hvað gerist næst?

KR á annan stórleik í næstu umferð. Liðið sækir þá FH heim á laugardaginn. Daginn áður fær Valur nýliða Leiknis í heimsókn.

Rúnar: Fannst við miklu betra liðið í fyrri hálfleik

KR-ingarnir hans Rúnars Kristinssonar hafa tapað báðum heimaleikjum sínum á tímabilinu.vísir/hulda margrét

„Þetta var mjög súrt tap. Mér fannst við eiga meira skilið út úr leiknum. Hann var kaflaskiptur. Mér fannst við mun betri í fyrri hálfleik og miklu betra liðið á vellinum þótt þeir hafi verið meira með boltann. Þeir áttu ekki skot á mark og varla fyrirgjöf. Við áttum öll hættulegu færin í fyrri hálfleik, eða hættulegu upphlaupin fannst mér,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, eftir tapið fyrir Val í kvöld.

„Svo jöfnuðu þeir í lok fyrri hálfleik sem setti okkur aðeins í erfiða stöðu. Við hefðum viljað vera yfir í hálfleik. Valsmenn spiluðu samt vel og héldu boltanum gríðarlega vel og þrýstu okkur aftar en maður skynjaði aldrei neina hættu.“

Valsmenn náðu forystunni á 48. mínútu þegar Haukur Páll Sigurðsson skoraði glæsilegt mark. Sex mínútum síðar gerði Sigurður Egill Lárusson þriðja mark Vals.

„Þeir byrjuðu seinni hálfleikinn svo af krafti og fengu gott mark frá Hauki Páli. Við æddum fram með fullmarga menn og gerðum mistök í að hleypa þeim í skyndisókn í þriðja markinu,“ sagði Rúnar sem fór svo yfir mörkin tvö.

„Það er eitthvað kaos fyrir utan vítateig og boltinn fellur fyrir Hauk og hann kláraði það frábærlega. Svo var Grétar kannski fullbrattur að vaða upp völlinn, við misstum boltann og þeir fengu skyndisókn.“

Eftir þriðja mark Vals gerði Rúnar tvöfalda skiptingu og setti Kjartan Henry Finnbogason og Stefán Árna Geirsson inn á.

„Kjartan og Stefán komu gríðarlega vel inn. Stefán er góður að halda boltanum og við héldum honum ekki nógu vel í fyrri hálfleik. Við vorum með margar langar sendingar og kýlingar en þær voru líka með heimilisfang,“ sagði Rúnar.

„Þeir hjálpuðu til við að breyta leiknum og snúa honum aðeins og við vorum óheppnir að jafna ekki. Hannes ver á síðustu sekúndunni og Stefán brenndi af algjöru dauðafæri á markteig.“

Rúnar var svekktur að uppskera ekkert þrátt fyrir lengstum góða frammistöðu.

„Það er súrt að tapa þessu því mínir menn lögðu á sig gríðarlega vinnu og ég var ofboðslega ánægður með það. Þeir sýndu karakter og vilja og hafa gert það hingað til en úrslitin hafa bara alls ekki fallið með okkur. Við þurfum bara að halda áfram og hafa trú á því sem við erum að gera,“ sagði Rúnar að endingu.

Heimir: Hannes steig upp þegar þess þurfti

Heimir Guðjónsson var virkilega sáttur með hvernig sínir menn byrjuðu seinni hálfleikinn gegn KR.vísir/hulda margrét

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, var að vonum ánægður með sigurinn á KR í kvöld. Hann var þó langt frá því að vera sáttur með frammistöðu Valsmanna í fyrri hálfleik.

„Ég held að þetta hafi verið sterkur sigur miðað við gang leiksins. Mér fannst við ljónheppnir að sleppa inn í hálfleik með 1-1 og hefðum líka verið heppnir með 1-0,“ sagði Heimir eftir leikinn.

„KR-ingarnir voru á undan í alla bolta og unnu alla seinni bolta og návígi. Við bara mættum ekki til leiks. Við vorum ekki klárir í byrjun. En Sebe [Sebastian Hedlund] skoraði frábært mark eftir hornspyrnu og það gaf okkur mikið. Svo gátum við ekki verið lélegri en í fyrri hálfleik.“

Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn vel og skoruðu tvö mörk á fyrstu níu mínútum hans.

„Þegar þú spilar við KR þarftu að vera með grunnatriði leiksins á hreinu og mér fannst við byrja seinni hálfleikinn sterkt að því leitinu til. Við mættum þeim í baráttunni,“ sagði Heimir.

Hannes Þór Halldórsson gerði slæm mistök í fyrra marki KR en bætti upp fyrir það með frábærri markvörslu frá Óskari Erni Haukssyni undir blálokin.

„Ég á eftir að skoða þetta mark aftur. Það var eitthvað klafs en Hannes er góður og reynslumikill markvöður og steig upp fyrir okkur þegar þess þurfti og var flottur,“ sagði Heimir.

KR-ingar lágu á Valsmönnum undir lok leiks en gestirnir stóðust pressuna.

„KR-liðið er gríðarlega öflugt. Þeir voru komnir með Kjartan Henry [Finnbogason] og Kristján Flóka [Finnbogason] inn á og við þurftum að breyta og stækka liðið okkar til að eiga við þá og það heppnaðist,“ sagði Heimir að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira