Innlent

Til greina kemur að setja kvóta á rástímana

Jakob Bjarnar skrifar
Hér má sjá Björn Víglundsson formann á teig á Korpu. Með honum er Emil Hallfreðsson knattspyrnumaður. 
Hér má sjá Björn Víglundsson formann á teig á Korpu. Með honum er Emil Hallfreðsson knattspyrnumaður.  vísir/vilhelm

Ásókn í að komast að á golfvelli á höfuðborgarsvæðinu hefur aldrei verið meiri og bitist er um rástímana. Sekúndum eftir að opnað hefur verið fyrir skráningu eru allir tímar bókaðir; ýmsum til mikillar mæðu.

Golftímabilið er rétt um það bil að hefjast. En þegar opnað er fyrir skráningu á golfvöllinn fjórum dögum síðar, að kvöldi dags klukkan 22 eru tugir, ef ekki hundruð kylfinga mættir pinnstífir fyrir framan tölvuna sína. Þeir hamast á „refresh-takkanum“ og klikka á þar til gerð box og reyna að hrifsa til sín réttinn til skráningar.

Eins og hörku tölvuleikur að ná sér í tíma

Þetta er eins og grjótharður tölvuleikur, Counter-Strike eða eitthvað ámóta og mínútu eftir að opnað hefur verið, á slaginu 22, eru allir rástímar uppbókaðir. Ljóst er að fjölmargir sitja eftir með sárt ennið, bölva hraustlega eða bera harm sinn í hljóði. Einhverjir fá útrás fyrir ergelsi sitt með því að bása í Facebook-hópum kylfinga. Þetta er orðin keppni í tölvufimi sem ýmsum þykir reyndar stangast á við íþróttina og anda hennar; lífstíll sem miðar einmitt að því að afstressvæða mannskapinn.

Björn Víglundsson er formaður stærsta golfklúbbs landsins, Golfklúbbs Reykjavíkur, og þar hafa menn ekki farið varhluta af eftirspurninni og spenningnum. Hann segir að þarna séu að verki ýmsir samverkandi þættir. Hann hafnar því að þessi sprengja hafi komið þeim í opna skjöldu.

„Nei, alls ekki. Við vorum okkur algjörlega meðvituð um að golfsumarið yrði mjög sambærilegt við 2020, til að byrja með. Kylfingar hafa verið duglegir að ferðast til útlanda og fá útrás fyrir golfhreyfinguna sína. Nú fer hún öll fram hér innanlands. Fyrirséð að það hefði áhrif. Og ekki bara það, við upplifum nú að um meiri frítíma er að ræða hjá mörgum, hverjar sem ástæðurnar eru á bak við það,“ segir Björn.

Og rétt er sem Björn segir, ekkert vantaði upp á að slegist hafi verið um rástímana í fyrra. Eins og fram kemur í grein Vísis um einmitt þessi slagsmál þá.

Ýmislegt gert til að mæta eftirspurninni

Og enn eykst álagið. Stórir hópar virðast hafa tímann fyrir sér því ef rástímabókanir eru skoðaðar þá eru það ekki aðeins álagstímar sem eru pakkaðir, svo sem um helgar og á kvöldin þegar veður leyfir, heldur eru allir rástímar um á virkum dögum bókaðir einnig.

„Meðalfélagsmaðurinn er að spila oftar en áður,“ segir Björn og gerir því skóna að hin mikla eftirspurn muni gefa eftir þegar líða tekur á sumarið.

Björn mundar dræverinn. Ljóst er að ekki er mikið út á þessa golfsveiflu formannsins að setja.vísir/vilhelm

„Oft er pressan mest í maí. Þá er fólk minna farið að leggja land undir fót og fara á vellina í kringum höfuðborgarsvæðið. Ekki er búið að opna alla velli, framboðið takmarkað. Margir vellir inn til landsins eru ekki búnir að opna og eða bara er opið fyrir innanfélagsmenn.“

En, ég man ekki eftir öðrum eins slag um rástímana og nú er?

„Það er alveg rétt. Við í GR byrjuðum á því í fyrra, og margir klúbbar sem fylgdu, með að stytta tímann á milli rástíma til að koma fleirum að. Breytingin úr 10 mínútum í 9 mínútur þýðir að 120 viðbótarkylfingar komast að á viku. Það munar svo miklu. Það bætir ríflega við framboðið.“

Björn segir að stigin hafi verið fleiri skref í þá átt, nú líða ýmist 9 eða 8 mínútur, til skiptis, milli þess sem holl eru ræst út.

„Þetta hefur gengið vel. Leikhraðinn hefur verið jafn og góður. Í það minnsta bætir þetta eins miklu við framboðið og hægt er.“

Ofsetnir klúbbar

Hver félagsmaður er talsvert virkari en verið hefur. Sem kemur meðal annars til af einstæðum aðstæðum sem helgast af Covid-19. En þá vaknar spurningin hvort ekki séu hreinlega of margir í klúbbnum? Björn þekkir þá umræðu.

„Og við gerum okkur grein fyrir því. Við fylgjumst vel með fjöldanum hjá okkur og öðrum og flestir af þessum höfuðborgarklúbbum eru með um það bil 60 félagsmenn per holu: 18 x 60 er sirka talan sem er meðaltalið. 

Gylfi Sigurðsson knattspyrnumaður er snjall kylfingur. Hér með félögum sínum í íslenska landsliðinu á Korpu. vísir/vilhelm

Einhver frávik eru á þessu, einhverjir sem eru með talsvert fleiri per holu,“ segir Björn. Þetta þýðir að margir klúbbar eru sneisafullir og þar eru langir biðlistar. Sem stendur eru um 350 manns á biðlista hjá GR en skráðir meðlimir eru 3.400 manns.

„Alltof margir í GR? Þar eru flestir vegna þess að það er enginn með fleiri golfholur en GR. Okkar félagafjöldi er í takti við klúbba í kringum okkur sem miða við 60 per holu.“

Spurður hvort Björn hafi sjálfur setið við tölvuna sína og reynt að næla sér í rástíma segist hann ekki svo mikið sem hafa reynt. Hann var í opnunarmóti Korpu fyrir viku en í dag opnar svo Grafarholtið.

„En ég fylgist vel með. Ég hef verið að hjálpa syni mínum að komast að og hann náði í níu holur um daginn. Já, vinsælustu rástímarnir eru fljótir að fara.“

Með opnun Grafarholtsins eykst framboðið um 18 holur og Björn vonar að það verði til þess eftirspurninni verði að einhverju leyti mætt. Og hann bendir á að stundum séu afföll og þá geti verið leikur í stöðunni að hreinlega mæta og skjóta sér inn í holl, þegar og ef svo ber undir. Þá er GR með eina tíu vinavelli sem flestir eru í um hálftíma akstursradíuss frá höfuðborginni. Björn segir þessa stöðu sannarlega hafa verið rædda innan stjórnarinnar.

Á undanförnum áratug hefur ástundun kvenna og gamlingja aukist verulega í golfinu en í allra síðustu tíð merkja menn mesta aukningu meðal ungra karlmanna. Án efa hefur þar sitt að segja að knattspyrnumenn eru farnir að stunda golf af kappi.vísir/vilhelm

„Að einhverju leyti lítum við á þetta sem tímabundið ástand meðan við erum að labba í gegnum þennan faraldur okkar. Við erum með um það bil sama félagafjöldann ár eftir ár. Þetta er hegðunarbreyting. Ekki búið að fjölga golfholunum og er ekki búið að fjölga félögum; hegðunin er breytt. Og svo er gríðarleg stemming og áhugi fyrir golfi.“

Skoðað hvort vert sé að kvótasetja rástímana

En hvernig er hægt að mæta þessum vanda? Ljóst er að margir sem hafa greitt árgjald, sem er vel yfir 100 þúsund krónur, komast hreinlega ekki að og sitja eftir með sárt ennið. Fram hefur komið sú hugmynd að setja kvóta á félaga svo ekki komi upp sú staða að þeir hinir sömu sitji að öllum tímunum; bæði um virka daga sem og um helgar. 

Forseti GSÍ, Haukur Örn Birgisson, nefndi þann möguleika í samtali við Vísi í vor, að það væri ekki eins flókið í framkvæmd og ætla mætti. Í skráningarkerfi GSÍ, Golfbox, er að finna stillingar þar sem hægt er að setja bremsu á þá sem hafa verið iðnari við kolann en aðrir. Til að jafna leikinn.

Björn segir þetta réttmætt sjónarmið. „Auðvitað. En það er stór ákvörðun að byrja að skammta þessi verðmæti. Það þarf að skoða.“

Hann segist vita að aðrir klúbbar á höfuðborgarsvæðinu séu með lengri bókunartíma, þá sé hægt að bóka sex daga fram í tímann, en þeir eru fjórir hjá GR.

„Þar má þá bara vera með fjóra virka rástíma. Mér finnst það heilmikið. Að þú getir spilað fjóra daga af sex. Ég Þekki ekki marga sem spila uppá hvern einasta dag. En þeir eru sennilega til. Kerfið býður upp á ýmsa valmöguleika.“

Björn segist vilja sjá hvernig þetta þróast allra næstu daga. Þegar staðan liggur fyrir eftir að allir vellir hafa opnað en margir þeirra gera það einmitt í dag. 

„En það er ljóst að það verður mikið golf spilað í sumar.“

Víst er að slík aðgerð myndi leggjast illa í þá sem duglegastir eru að mæta en þeir sem fastir eru í vinnu og komast ekki að um helgar myndu fagna.

Sjálfstæð spenna myndast um að næla í takmörkuð gæði

Annað sem vert er að hafa bak við eyrað er að þegar um svo takmörkuð gæði er að ræða, þá getur myndast sjálfstæð spenna um það að komast yfir hin takmörkuðu gæði. Björn segir þetta rétt. Og það geti svo haft neikvæð áhrif á mætinguna og aukið afbókunarhlutfallið.

„Fólki ber að sjálfsögðu að afbóka hyggist það ekki nota rástímann. Mikilvægt er að hvetja fólk til þess. Það getur alltaf eitthvað komið upp á en þá er mikilvægt að vera snöggur til og afbóka skráðan tíma.“

Nesklúbburinn er vinsæll og þar er allt yfirfullt en völlurinn úti á Seltjarnarnesi er aðeins níu holu völlur.vísir/vilhelm

Björn segir harðar refsingar liggja við því ef menn bóka tíma en láta svo ekki sjá sig. Búið er að efla eftirlitið; fleiri eftirlitsmenn á völlunum sem sjá til að fólk tilkynni mætingu og sé mætt og að það haldi leikhraða.

„Mæti það ekki fær fólk viðvörun. Verði aftur messufall þá ósköp einfaldlega missirðu bókunarréttindi þín. Það geta allir gert mistök tilfallandi, en menn eiga þá ekki að gera slík mistök aftur.“

Gaman að vera í tísku

Annar flötur sem tengist þessari umræðu er hvort golfklúbbarnir sjálfir séu í einhvers konar tilvistarvanda; sveiflist milli þess að rekin sé vinaleg klúbbastarfsemi eða hvort hreinlega sé um harðan fyrirtækjarekstur?

„Hlutverk golfklúbbanna er ekki hagnaðardrifin starfsemi. númer eitt, tvö og þrjú er að gefa félögunum sínum eins mikið fyrir félagsgjaldið sitt og kostur er. Við hjá GR höfum blessunarlega verið með góðan rekstur og erum að leggja til hliðar til að geta byggt upp betri aðstöðu,“ segir Björn og telur upp ýmsar framkvæmdir sem eru ýmist hafnar eða á teikniborðinu.

Björn Víglundsson segir það sannalega ekki hafa talist svalt að vera í golfi þegar hann hóf að stunda það. Nú er öldin önnur og Björn fagnar því að vera kominn í tísku.sýn

„Það er alls ekki markmið að safna sjóðum heldur fjárfesta aftur í klúbbnum og leyfa félagsmönnum að njóta. Not for profit. Það eru ekki hagnaðarsjónarmið sem ráða ferð heldur að fólk fái góða aðstöðu til að nýta. En til þess þarf reksturinn að vera góður. Og félagið í aðstöðu til að geta fjárfest í að gera gott betra.“

Björn segir að allir verði að teygja sig eftir þolinmæðisglasinu núna, því miður, en mikilvægt fyrir klúbbana að gera engar drastískar breytingar á félagafjölda fyrr en menn sjá hvort þetta er varanleg breyting.

„Ég held að hún sé að einhverju leyti tímabundin. En einhver hluti er líka vegna aukins áhuga og það er gaman. Að golfið sé vinsælt. Þetta var nú ekkert mjög cool þegar ég byrjaði á sínum tíma en... það er gaman að vera kominn í tísku.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×