Íslenski boltinn

KR staðfestir komu Kjartans Henrys

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kjartan Henry Finnbogason fagnar einu þriggja marka sinna fyrir íslenska landsliðið.
Kjartan Henry Finnbogason fagnar einu þriggja marka sinna fyrir íslenska landsliðið. getty/Francois Nel

Kjartan Henry Finnbogason hefur skrifað undir þriggja ára samning við KR. Hann snýr því aftur til uppeldisfélagsins sem hann lék síðast með 2014.

Kjartan lék síðast með Esbjerg í dönsku B-deildinni en í gær var greint frá því að hann væri laus allra mála hjá félaginu og væri á heimleið.

Hann er nú genginn í raðir KR eins og við var búist og hefur skrifað undir þriggja ára samning við liðið.

Kjartan varð Íslandsmeistari með KR 2011 og 2013 og bikarmeistari 2011, 2012 og 2014 undir stjórn Rúnars Kristinssonar sem er einnig þjálfari KR í dag.

Kjartan Henry, sem verður 35 ára í sumar, hefur leikið 98 leiki í efstu deild á Íslandi og skorað 38 mörk. Þá hefur hann skorað þrettán mörk í 27 bikarleikjum og átta mörk í átján Evrópuleikjum fyrir KR. Hann hefur leikið þrettán A-landsleiki og skorað þrjú mörk.

KR sækir Fylki heim í 3. umferð Pepsi Max-deildar karla í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 18:45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×