Skoðun

Ó­tíma­bært að fagna árangri í lofts­lags­málum - Lofts­lags­stefna ríkis­stjórnarinnar dugir ekki

Auður Önnu Magnúsdóttir, Árni Finnsson og Tinna Hallgrímsdóttir skrifa

Opið bréf frá forsvarsfólki þriggja náttúruverndarsamtaka til:

Forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttir

Umhverfis- og auðlindaráðherra Guðmundar Inga Guðbrandssonar

Fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarna Benediktssonar

Samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar

Tvö prósent samdráttur varð í losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands milli áranna 2018 og 2019. Þetta er löngu tímabær breyting frá sífelldum vexti í losun undanfarin ár og áratugi. Því miður er ljóst að þessi samdráttur er að litlu leyti árangur markvissra aðgerða stjórnvalda, heldur fyrst og fremst vegna fækkunar ferðamanna og minni fiskveiða. Sú grundvallarbreyting sem kallað hefur verið eftir lætur því bíða eftir sér. Ef ekki verður gagnger breyting á er ólíklegt að þessi, þó jákvæða, þróun á árinu 2019 verði varanleg. Við teljum því fullyrðingu forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar um að ,,kyrrstaðan hafi verið rofin” algjörlega ótímabæra. Stjórnvöld verða að grípa til skilvirkari aðgerða en fram til þessa. Ekki einungis til að viðhalda samdrætti, heldur líka til að auka samdrátt.

Til þess að ná markmiði Parísarsáttmálans um að takmarka hlýnun Jarðar við 1,5°C þarf heimslosun að helmingast fyrir árið 2030. Íslendingar eru rík þjóð og hefur því bæði getu og ber siðferðislega skyldu til að taka á sig aukna ábyrgð.

Stjórnvöld hafa sent frá sér óljós skilaboð um að ný markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda miðist við 55% samdrátt, í samfloti við aðildarríki ESB og Noreg, fyrir árið 2030. Samtökin krefjast þess að Ísland setji sér og lögfesti sjálfstætt, metnaðarfullt markmið líkt og önnur Norðurlönd hafa gert. Einnig þarf að setja magnbundna og tímasetta stefnu og aðgerðaáætlun um hvernig er hægt að ná því fyrir árið 2030.

António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur ítrekað lýst því yfir að neyðarástand ríki í heiminum vegna loftslagsbreytinga og vegna eyðingar vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni, hinni raunverulegu undirstöðu lífs á Jörðinni. Löngu tímabært er að Ísland lýsi yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og bregðist við í samræmi við það.

Stjórnvöldum ber að tryggja viðunandi upplýsingamiðlun varðandi frammistöðu Íslands í loftslagsmálum og gagnsæi um ákvarðanatöku og markmið í málaflokknum. Samtökin krefjast þess að ríkisstjórnin leggi minni áherslu á að hampa eigin ágæti og meiri á að tryggja lýðræðislegt aðhald og þátttöku.

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands

Tinna Hallgrímsdóttir, formaður Ungra umhverfissinna




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×