Innlent

Losa skólp út í sjó við Elliðavog og Arnarvog

Kjartan Kjartansson skrifar
Rafmagn verður tekið af skólpdælustöð á Gelgjutanga vegna framkvæmda við Vogabyggð í Reykjavík.
Rafmagn verður tekið af skólpdælustöð á Gelgjutanga vegna framkvæmda við Vogabyggð í Reykjavík. Reykjavíkurborg

Óhreinsuðu skólpi verður veitt út í Elliðavog og Arnarvog á meðan dælustöð Veitna við Gelgjutanga er óstarfhæf á morgun. Rafmagn verður tekið af skólpdælustöðinni vegna vinnu við rafdreifikerfi í tengslum við uppbyggingu í Vogabyggð.

Dælustöðin verður óstarfhæf frá klukkan sex til klukkan átta í fyrramálið, að því er segir í tilkynningu frá Veitum. Þar er fullyrt að losun á skólpi í sjó í skamman tíma hafi ekki varanleg áhrif á lífríkið og örverur í skólpi lifi aðeins örfáar klukkustundir í sjónum.

Aftur á móti segja Veitur að rusl í skólpi sé stærra vandamál. Það velkist um í sjónum og því geti skolað upp í fjörur. Því brýnir fyrirtækið fyrir fólki að setja ekkert í klósettið annað en líkamlegan úrgang og klósettpappír.

Til stendur að setja upp upplýsingaskilti á nokkrum stöðum á gönguleiðum í kringum dælustöðina svo að fólk haldi sig fjarri sjónum þar sem skólp er losað. Þá verður fylgst með svæðinu næsta daga og rusl hreinsað hafi það borist með skólpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×