Innlent

Dæmdir fyrir að slást hvor við annan

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mennirnir voru báðir dæmdir til fangelsisvistar í Landsrétti. 
Mennirnir voru báðir dæmdir til fangelsisvistar í Landsrétti.  Vísir/Vilhelm

Tveir karlmenn voru fyrir landsrétti í dag dæmdir til fangelsisvistar fyrir að hafa ráðist hvor á annan. Sá fyrri hafði slegið hinn með hafnaboltakylfu í höfuðið. Hinn maðurinn hafði lagt tvisvar til hins fyrra með hníf. Landsréttur féllst ekki á vörn mannanna tveggja að um neyðarvörn hafi verið að ræða.

Maðurinn TD var dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir að hafa barið TZ einu sinni í höfuðið með hafnaboltakylfu. Þá er honum gert að greiða TZ 200 þúsund krónur í skaðabætur. TZ hins vegar er dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir að hafa veist tvisvar að TD með hníf.

Atvikið sem um ræðir átti sér stað fyrir utan söluturn í Reykjavík í júlí 2019. Þegar lögreglu bar að garði umræddan dag sagði sá með hafnaboltakylfuna að sá með hnífinn hafi hótað fjölskyldu hans og ógnað sér með hníf.

Hinn maðurinn hélt því hins vegar fram að menn hefðu veist að sér með hafnaboltakylfu og hafi hann verið með hníf á sér og haldið á honum þegar mennirnir komu.

Á myndbandsupptökum úr öryggismyndavélum á svæðinu má hins vegar sjá hvar sá með hafnarboltakylfuna, TD, snarast úr bifreið, sem hann var farþegi í, og reiða hafnaboltakylfu til lofts með báðum höndum. Þá sést hinn, TZ, ganga greitt á móti TD með hníf í hendi og leggja að honum með hnífnum í tvígang á meðan TD barði TZ í höfuðið með kylfunni.

Báðir sögðust þeir hafa verið að verja sig í atvikinu og saka þeir báðir hinn um að hafa hótað sér áður en atvikið átti sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×