Í gær og í dag fjallar Atvinnulífið um það með hvaða hætti íslensk fyrirtæki eru að bregðast við þegar sérþekkingu vantar á Íslandi í störf sem hér er verið að byggja upp til framtíðar.
Þjálfa og mennta starfsfólk
Að sögn Ásgríms starfa um 550 starfsmenn hjá Alcoa.
Af þessum hópi eru 32 tækni- og verkfræðingar og um sjö iðnfræðingar.
Þá starfa um 250 verktakar fyrir Alcoa sem sinna ýmsum störfum.
„Erlendis er „reliability engineering“ sérstök námsbraut sem hægt fara á. Námið snýr að því að einstaklingar fá hæfni til þess að reka búnað á eins hagkvæman hátt og hægt er og einnig að tryggja lífaldur véla,“ segir Ásgrímur og bætir við: „Það er mín tilfinning að fyrirtæki, sérstaklega í stóriðju og raforkugeiranum, horfi sífellt meira til þess að laða einstaklinga með þessa menntun til sín. Ástæðan er einfaldlega sú að stór hluti af stýranlegum rekstrarkostnaði þessa fyrirtækja er viðhaldskostnaður.“
Til að bregðast við skorti á fólki með þessa menntun, hefur Fjarðarál verið að senda starfsfólk erlendis í nám.
Við hjá Fjarðaáli höfum verið að senda fólk frá okkur erlendis í svona nám en auðvitað væri hentugra fyrir alla aðila ef námið væri aðgengilegt hér á landi.
Því er mikilvægt að koma þessum fögum inn í tæknifræðinám hér. Það nám er nú þegar sterkur grunnur enda er það mjög praktískt og hefur verið eftirsótt af iðnaðarmönnum til framhaldsmenntunar,“
segir Ásgrímur.
Þá segir Ásgrímur það keppikefli hjá Alcoa að lágmarka starfsmannaveltu eins og hægt er. Því sé lögð áhersla á þjálfun og að fólk upplifi að það geti þróast í starfi hjá fyrirtækinu.
Í þessum efnum, er ekki síst horft til aukinnar menntunar.
„Við bjóðum uppá nemasamninga fyrir iðnarmenn, styrkjum fólk til áframhaldandi náms til dæmis í iðn- og tæknifræði með það leiðarljósi að fólk þróist í störfum og upplifi fjölbreytt starfsumhverfi. Við viljum að fólkið starfi hjá okkur sem lengst en það þarf þó alltaf að gæta að því að það staðni ekki heldur sé sífellt að bæta við sig þekkingu og þróast í starfi,“ segir Ásgrímur.

Vill fjölga námsleiðum
Ásgrímur segir mikilvægt að horfa til þeirra faga sem atvinnulífinu vantar að fá fleira fólk til að starfa í og bæta þeim fögum við í skólana.
„Þess vegna er þetta samtal milli háskólasamfélagsins og atvinnulífsins svo mikilvægt. Við þurfum að tryggja að það sé gott flæði þarna á milli svo háskólarnir séu að skila af sér fólki sem er tilbúið að takast á við þau mikilvægu verkefni sem bíða þeirra hjá fyrirtækjunum,“ segir Ásgrímur.
Ásgrímur nefnir sem dæmi að fyrir fyrirtæki eins og Fjarðarál sé það mikil áskorun að vera stór vinnustaður á litlu starfsvæði eins og Austurlandi, þar sem atvinnuleysi er lítið.
Þegar stutt er við menntun starfsfólks, nýtist fjarnám mörgum vel.
Fjarnám er hins vegar ekki alltaf valkostur.
Sem dæmi nefnir hann tæknifræðina en hún er aðeins í boði sem staðarnám og tekur námið þrjú og hálft ár.
Ef fólk þarf að flytja burt af svæðinu er ekki víst að við náum því aftur til baka.
Þetta er áskorun fyrir okkur því eins gott og iðnfræðinámið er þá hentar það ekki fyrir öll störf hjá okkur. Sum störf krefjast tæknifræðimenntunar og við köllum eftir slíku námi á landsbygginni.“

Horft til framtíðar
Ásgrímur segir spennandi verkefni í gangi um þessar mundir þar sem Menntamálaráðuneytið í samvinnu við Háskólann á Akureyri og Háskólann í Reykjavík, skoðar að setja upp háskólasetur á Austurlandi.
Tæknifræðimenntun yrði þá áhersla hjá setrinu.
„Það verður spennandi fyrir okkar fyrirtæki að fylgjast með framvindunni á þessu og við hlökkum til að sjá þetta verða að veruleika,“ segir Ásgrímur og er vongóður um að þessar hugmyndir raungerist.
Enda telur hann eftirspurnina eftir fólki með tæknifræðimenntun aðeins eiga eftir að aukast.
Fjórða iðnbyltingin og þekking á öllu sem tengist gervigreind og sjálfstýringu kallar á að fyrirtæki þurfi fleira starfsfólk með þessa menntun.
„Ef við erum ekki vakandi fyrir þessu gætum við lent í því að skortur verið á rétt menntuðu fólki til að takast á við þau verkefni sem eru framundan og það er ekki góð staða að vera í,“ segir Ásgrímur.
Þá segir hann að ekki sé nóg að tryggja að tæknifræðimenntun verði til staðar. Huga þurfi að því hvernig fög eins og tæknifræðin laði til sín sem flest fólk.
Því atvinnulífinu muni bráðvanta mjög marga í ný störf þessari menntun tengdri.
Stóra spurningin er síðan hvernig við tryggjum að við séum að fá þann fjölda sem við þurfum inn á þessar námsleiðir.
Ég hef ekki svörin við því á þessari stundu en trúi því að með því að leggjast á eitt, atvinnulífið og háskólarnir þá munum við ná fram þeim breytingum sem við þurfum og þannig tryggja að við séum ekki bara að mennta fólk í þessum fögum, heldur að við séum að mennta þau í þeim greinum sem þarf innan þessara námslína,“
segir Ásgrímur.