Íslenski boltinn

Meðalaldur markaskorara í 1. umferðinni 32,6 ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Annað árið í röð skoraði Óskar Örn Hauksson í 1. umferð Pepsi Max-deildarinnar.
Annað árið í röð skoraði Óskar Örn Hauksson í 1. umferð Pepsi Max-deildarinnar. vísir/vilhelm

Aðeins sjö mörk voru skoruð í 1. umferð Pepsi Max-deildar karla í fótbolta og það voru reynsluboltarnir sem sáu um að skora þau. Engum leikmanni 29 ára og yngri tókst að koma boltanum í netið í 1. umferðinni.

Leikmenn Pepsi Max-deildarinnar eru ekki enn búnir að reima á sig markaskóna ef marka má 1. umferðina. Aðeins sjö mörk voru skoruð og átta af tólf liðum deildarinnar mistókst að skora.

Þeim sjö leikmönnum sem tókst að skora eru allt stór nöfn í deildinni og miklir reynsluboltar. Þetta eru þeir Óskar Örn Hauksson, Kennie Chopart, Sölvi Geir Ottesen, Steven Lennon, Matthías Vilhjálmsson, Patrick Pedersen og Kristinn Freyr Sigurðsson.

Allir þessir leikmenn eru komnir yfir þrítugt fyrir utan Pedersen og Kristin Frey sem fagna þrítugsafmæli sínu síðar á þessu ári.

Patrick Pedersen skoraði fyrsta mark Pepsi Max-deildarinnar 2021.vísir/hulda margrét

Samanlagður aldur markaskoranna sjö er 228 ár og meðalaldurinn er 32,6 ár. Þeir elstu, Sölvi og Óskar Örn, eru fæddir 1984 en þeir yngstu, Pedersen og Kristinn Freyr, fæddir 1991.

Allir þessir leikmenn hafa leikið í Pepsi Max-deildinni undanfarin ár fyrir utan Matthías sneri aftur í FH í vetur eftir áratugar dvöl í Noregi. Mark Matthíasar gegn Fylki á laugardaginn var hans fyrsta í efstu deild á Íslandi síðan hann skoraði í 3-5 sigri FH á Fylki 1. október 2011. Síðustu tvö mörk Ísfirðingsins í efstu deild á Íslandi hafa því komið í Árbænum.

Önnur umferð Pepsi Max-deildarinnar hefst á föstudaginn hefst með leik KR og KA á Meistaravöllum. Það er jafnframt fyrsti grasleikur tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×