Innlent

Segir sam­drátt hafa verið minni en á­ætlað var

Atli Ísleifsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það vera mikilvægt verkefni núna að tryggja að verðbólga haldi ekki áfram að vaxa.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það vera mikilvægt verkefni núna að tryggja að verðbólga haldi ekki áfram að vaxa. Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir aðspurð um hvort að ríkissjóður standi undir nýjasta efnahagspakka ríkisstjórnarinnar, ofan á þá fyrri, að ríkisstjórnin meti það sem svo að samdráttur hafi verið minni en spáð var, meðal annars einmitt vegna aðgerða stjórnvalda.

Þetta sagði Katrín við fréttastofu að loknum ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum um hádegisbil. Að fundi loknum var greint frá nýjasta efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Felur pakkinn meðal annars í sér eingreiðslu til atvinnulausra, barnabótaauka, nýrri ferðagjöf, framlengingu lokunarstyrkja og viðspyrnustyrkja.

Katrín segir stöðuna nú í raun vera betri en menn óttuðust í fyrra. „Við teljum að við séum að grípa til aðgerða sem eru ekki bara mikilvægar fyrir samfélagið heldur líka hinar réttu efnahagslegu aðgerðir á þessum tímapunkti þar sem við erum enn á þeim staða að auka umsvif til að við komast hraðar út úr kreppunni,“ segir Katrín.

Aðspurð um hvort að svartar verðbólguspár muni hafa áhrif á efnahagsaðgerðir ríkisstjórnar segir Katrín það auðvitað vera mikilvægt verkefni núna að tryggja að verðbólga haldi ekki áfram að vaxa.

„Það getur auðvitað sett álag á heimilin í landinu og auðvitað líka hið opinbera ef verðbólga heldur áfram að vaxa,“ segir Katrín.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×