Innlent

Farþegum frá Hollandi og Póllandi ekið beint í sóttkvíarhús á morgun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Von er á tveimur vélum frá há-áætturíkjum á morgun.
Von er á tveimur vélum frá há-áætturíkjum á morgun. Vísir/Vilhelm

Á morgun tekur við sama fyrirkomulag og gilti yfir páska í Leifsstöð, þar sem ítarlega verður farið yfir hvaðan ferðalangar sem lenda eru að koma og hvers vegna.

Von er á tveimur vélum frá ríkjum sem eru í B-flokki samkvæmt flokkun sóttvarnalæknis yfir svæði og lönd sem talin eru sérstök áhættusvæði vegna Covid-19. Þessi ríki eru Holland og Pólland en þar er 14 daga nýgengi smita 700 eða meira á hverja 100 þúsund íbúa.

Þeir sem eru að koma beint frá Hollandi og Póllandi, eða öðrum ríkjum í B-flokki, verða skilyrðislaust skikkaðir í sóttkvíarhús, þar sem þeir verða að sæta sóttkví þar til niðurstöður seinni skimunar liggja fyrir.

„Við vorum svo sem byrjuð á þessu ferli fyrir páska og dettum bara í sama gír og þá,“ segir Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, um undirbúninginn fyrir morgundaginn.

Hann segist ekki vita hversu margir koma með vélunum tveimur.

Auglýsing heilbrigðisráðherra um áhættusvæði tekur gildi á morgun en Sigurgeir segir breytinguna aðallega felast í því að betur verður rýnt í það hvaðan fólk er að koma. Fátt sé um flug þessa dagana og því margir að koma með tengiflugi frá öðrum ríkjum.

Líkt og fyrir páska verða þeir fluttir frá vellinum í sérstökum rútum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×