Viðskipti innlent

Hátt í tíu milljarðar króna greiddir út í tekju­falls­styrki

Eiður Þór Árnason skrifar
Að sögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins hafa ríflega 80 milljarðar króna verið greiddir síðustu mánuði í tengslum við úrræði stjórnvalda vegna faraldursins.
Að sögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins hafa ríflega 80 milljarðar króna verið greiddir síðustu mánuði í tengslum við úrræði stjórnvalda vegna faraldursins. Vísir/Vilhelm

Hátt í tíu milljarðar króna hafa verið greiddir út í tekjufallsstyrki sem ætlað er að aðstoða rekstraraðila, þar með talið einyrkja, sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna kórónuveirufaraldursins.

Þá hafa um 2,3 milljarðar til viðbótar verið greiddir í svonefnda viðspyrnustyrki sem eru greiddir út mánaðarlega til rekstraraðila.

Frá þessu er greint í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins en þar segir að Skattinum hafi alls borist um 4.700 umsóknir um slíka styrki og um 85% umsóknanna hafi verið afgreiddar.

Þá hafa tæpir 2,4 milljarðar króna verið greiddir í lokunarstyrki. Að sögn ríkisstjórnarinnar hafa ríflega 80 milljarðar verið greiddir síðustu mánuði í tengslum við úrræði stjórnvalda vegna faraldursins.

Á fimmta þúsund rekstraraðilar og nær fjörutíu þúsund einstaklingar eru sagðir hafa nýtt sér stuðninginn. Þar að auki hafa rúmir sjö milljarðar króna verið endurgreiddir aukalega af virðisaukaskatti vegna framkvæmda.

Flest þeirra fyrirtækja sem hafa nýtt sér úrræði stjórnvalda vegna faraldursins eru með tíu launamenn eða færri.


Tengdar fréttir

Hafa greitt út fimm milljarða í tekju­falls­styrki

Um fimm milljarðar króna hafa verið greiddir í tekjufallsstyrki undanfarnar þrjár vikur til 822 rekstraraðila, að sögn stjórnvalda. Styrkirnir nýtast fyrirtækjum, félögum og einstaklingum sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og hafa orðið fyrir minnst 40% tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Vonbrigði að afgreiðsla á styrkjum hafi tafist

 „Ég ætla bara að segja að það eru vonbrigði að það skyldi hafa tafist jafn lengi og raun ber vitni að geta tekið við og afgreitt þessi mál,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag aðspurður um seinagang við greiðslu tekjufalls- og viðspyrnustyrkja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×