Innlent

Umsókn lífsskoðunarfélagsins DíaMats um lóð án endurgjalds hafnað á ný

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Barátta DíaMats fyrir lóð hefur staðið yfir í fjögur ár.
Barátta DíaMats fyrir lóð hefur staðið yfir í fjögur ár. Vísir/Egill

Borgarráð samþykkti á dögunum að synja umsókn DíaMats, lífsskoðunarfélags um díalektíska efnishyggju, um lóð í Reykjavík án endurgjalds. Félagið hefur barist fyrir því í fjögur ár að fá úthlutað lóð, líkt og önnur trú- og lífsskoðunarfélög.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.

Í greinargerð skrifstofu borgarstjóra og borgarritara er vísað til þeirra breytinga sem gerðar voru á lögum um skráð trú- og lífsskoðunarfélög árið 2013, þar sem gildissvið laganna var útvíkkað þannig að fleiri félög gátu fengið skráningu.

Þá sagði að Reykjavíkurborg hefði ekki úthlutað loðum til skráðra félaga án endurgjalds síðan breytingarnar tóku gildi. Einnig er tekið fram að borgin eigi hvort eð er ekki lóð á lausu til úthlutunar, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.

Samkvæmt Hagstofunni eru skráð trú- eða lífsskoðunarfélög á Íslandi nú um 55 talsins. Félagar í DíaMat eru 149. Forstöðumaður félagsins er Vésteinn Valgarðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×