Hann staðhæfði að Bandaríkin væru að kanna styrk Rússlands með því að senda herskip á svæðið.
„Við vörum Bandaríkin við því að það væri betra fyrir þá að halda sig frá Krímskaga og ströndum okkar í Svartahafi. Það væri þeim hollast,“ er haft eftir Ríabkov.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sló á svipaða strengi í morgun og lýsti því yfir að Rússar ættu að fækka hermönnum á landamærum Rússlands og Úkraínu. Þangað eru ráðamenn í Rússlandi sagðir hafa flutt tugi þúsunda hermanna og skriðdreka á undanförnum vikum.
Ráðamenn í Úkraínu hafa lýst því yfir að þeir hafi áhuga á því að ganga í Atlantshafsbandalagið en Rússar eru verulega mótfallnir því.
Eftir fund með utanríkisráðherra Úkraínu í morgun sagði Stoltenberg að það kæmi í raun Rússum ekki við hvort Úkraína gengi til til liðs við NATO í framtíðinni. Það væri Úkraínumanna og annarra aðildarríkja að ákvarða.
„Rússar eru nú að reyna að skapa áhrifasvið þar sem þeir fá að ákveða hvað nágrannar þeirra geta gert,“ sagði Stoltenberg á blaðamannafundi í morgun
Áhugasamir geta horft á blaðamannafundinn í heild sinni hér að neðan.
Ráðamenn í Kænugarði segja um fjörutíu þúsund rússneska hermenn vera við landamæri ríkjanna í austri og að Rússar hafi þar að auki sent um fjörutíu þúsund hermenn til Krímskaga.
Rússar gerðu árið 2014 innrás í Úkraínu og innlimuðu Krímskaga. Lengi vel þrættu ráðamenn í Rússlandi fyrir að rússneskir hermenn hefðu ráðist á Krímskaga en Pútín viðurkenndi það þegar yfirráð Rússa þar voru tryggð.
Þá hafa Rússar einnig staðið þétt við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu en um fjórtán þúsund manns hafa fallið í átökunum frá þau hófust árið 2014.
Úkraínumenn og bandamenn þeirra hafa lýst yfir áhyggjum af óútskýrðri hernaðaruppbyggingu Rússa á svæðinu. Dmítrí Peskov, talsmaður Vladímírs Pútíns, forseta Rússlands, hefur sagt að flutningur hermanna innan landamæra Rússlands komi öðrum ekki við og hefur sakað Úkraínumenn um að ögra Rússum.
Ríabkov tók undir það í morgun og sagði blaðamönnum að með því að aðstoða Úkraínumenn væru Bandaríkin og NATO að breyta Úkraínu í púðurtunnu.