Innlent

Sóttvarnalæknir vinnur að minnisblaði

Kjartan Kjartansson skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagðist telja að sóttvarnir veiktust ef úrskurður héraðsdóms yrði staðfestur í dag. Úrskurðurinn stendur óhaggaður og Þórólfur vinnu nú að nýju minnisblaði um framhaldið.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagðist telja að sóttvarnir veiktust ef úrskurður héraðsdóms yrði staðfestur í dag. Úrskurðurinn stendur óhaggaður og Þórólfur vinnu nú að nýju minnisblaði um framhaldið. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, vinnur nú að minnisblaði með tillögum að næstu skrefum eftir að Landsréttur sneri ekki við úrskurði héraðsdóms um að skyldudvöl í sóttkvíarhóteli væri ólögmæt í dag.

Landsréttur vísaði frá kæru sóttvarnalæknis vegna úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur og tók ekki efnislega afstöðu til hans í dag. Héraðsdómur taldi ekki hægt að skikka fólk sem kemur frá áhættusvæðum vegna kórónuveirufaraldursins til að dvelja á sóttkvíarhóteli og taldi reglugerð um það ekki standast lög. Sá úrskurður stendur áfram.

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður sóttvarnalæknis, staðfestir við Vísi að Þórólfur vinni að minnisblaði um næstu skref. Hann getur ekki sagt til um hvenær minnisblaðið verði afhent heilbrigðisráðherra.

Mbl.is hafði eftir Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, í kvöld að þau sóttvarnalæknir muni í sameiningu reyna að takmarka líkur á að smit berist til landsins yfir landamærin. Útilokaði hún ekki að bæta þyrfti lagaumhverfið til að svo mætti verða.

Þórólfur hefur ekki brugðist sjálfur við niðurstöðunni í Landsrétti í dag. Í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni áður en frávísunin lá fyrir sagðist hann telja að sóttvarnir á Íslandi veiktust ef úrskurður héraðsdóms yrði staðfestur.


Tengdar fréttir

Kæru sóttvarnalæknis vísað frá Landsrétti

Landsréttur vísaði frá kæru sóttvarnalæknis á úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur um lögmæti skyldudvalar í sóttkvíarhóteli. Sóttvarnalækni var talinn skorta lögvarða hagsmuni í málinu og tók Landsréttur ekki efnislega afstöðu til lögmætis skyldudvalarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×