Innlent

Hinir smituðu starfsmenn í ferðaþjónustu

Snorri Másson skrifar
Ekki er talið að íbúar í Vík í Mýrdal hafi verið útsettir.
Ekki er talið að íbúar í Vík í Mýrdal hafi verið útsettir. Vísir/Vilhelm

Fimm starfsmenn á vinnustað tengdum ferðaþjónustu í Mýrdalshreppi smituðust af Covid-19 eftir að smitaður einstaklingur kom í heimsókn til þeirra í vikunni. Að sögn Þorbjargar Gísladóttur, sveitarstjóra í Mýrdalshreppi, er ekki talið að smitin hafi nálgast þéttbýli í Vík í Mýrdal.

Á umræddum ferðaþjónustustað er eins og nærri má geta lítil starfsemi þessa stundina, þannig að smithættan afmarkaðist við það starfsfólk sem var á staðnum þegar hinn smitaði staldraði við.

Um leið er ekki talið að smitaða starfsfólkið hafi fyrir sitt leyti verið á ferðinni eftir að það var útsett fyrir smiti, þannig að rakningu er að miklu leyti lokið. Fólkið hafði ekki farið neitt enda búsett á staðnum.

Sá sem bar smitið í hópinn var að koma frá útlöndum en hafði þar sýnt fram á skírteini um fyrri sýkingu. Hann var því trúlega sýktur í annað sinn, að mati sóttvarnalæknis. Þeir fimm sem hann smitaði voru ekki í sóttkví við greiningu, þannig að þeir eru fimm af sex utan sóttkvíar í dag.

Þorbjörg kveðst tiltölulega róleg yfir ástandinu. „Okkur brá óneitanlega við þessar fréttir en eftir að hafa rætt við almannavarnir skilst mér að þetta sé afmarkað og einangrað smit. Þau gátu ekki séð að þetta hefði dreift sér,“ segir Þorbjörg í samtali við Vísi. Þetta sé þó áminning um að sofna ekki á verðinum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×