Innlent

And­lát karl­­manns sem lést í dag rann­sakað sem mann­dráp

Eiður Þór Árnason skrifar
Kerti123

Íslenskur karlmaður um þrítugt lést í dag af völdum áverka sem hann hlaut í líkamsárás fyrir utan heimili sitt í gær. Málið er rannsakað sem manndráp. Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við fréttastofu.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að maðurinn hafi verið fluttur á Landspítalann í gærmorgun eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás í Kórahverfinu í Kópavogi. Þrír hafa í dag verið handteknir vegna málsins en karlmaðurinn var úrskurðaður látinn á Landspítala síðdegis í dag.

Margeir segir að ekki sé grunur um að málið tengist morðinu í Rauðagerði. Mannlíf greindi fyrst frá andlátinu en tilkynning um árásina barst lögreglu klukkan 8.51 að morgni föstudagsins langa.

Rannsókn málsins er á frumstigi og segist lögregla ekki geta veitt frekari upplýsingar að svo stöddu. Ákvörðun um hvort krafist verði gæsluvarðhalds yfir þremenningunum liggur ekki fyrir.

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum úr tilkynningu frá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×