Körfubolti

Einn sá besti í NBA sögunni lést í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elgin Baylor átti magnaðan feril í NBA-deildinni og aðeins þeir Michael Jordan og Wilt Chamberlain skoruðu meira að meðaltali á ferlinum.
Elgin Baylor átti magnaðan feril í NBA-deildinni og aðeins þeir Michael Jordan og Wilt Chamberlain skoruðu meira að meðaltali á ferlinum. AP/Gus Ruelas

Heiðurshallarmeðlimurinn Elgin Baylor er látinn 86 ára gamall. NBA fjölskyldan minnist hans og sendir aðstandendum hans samúðarkveðjur.

Elgin Baylor lést á mánudaginn í faðmi fjölskyldu sinnar, eiginkonunnar Elaine og dótturinnar Krystal.

Elgin Baylor er í hópi bestu leikmannanna í sögu NBA deildarinnar í körfubolta en hann lék með Lakers frá 1958 til 1971.

Baylor er einn af fáum leikmönnum sem spiluðu bæði með Minneapolis Lakers og Los Angeles Lakers en hann flutti með liðinu árið 1960.

Baylor var kosinn nýliði ársins 1958-59 og besti leikmaður stjörnuleiksins á sínu fyrsta ári. Hann var alls valinn tíu sinnum í úrvalslið NBA á sínum fjórtán tímabilum.

Baylor endaði feril sin með 27,4 sti og 13,5 fráköst að meðaltali í leik. Hann er aðeins einn af fjórum leikmönnum í sögu NBA sem eru með 25 stig og 10 fráköst að meðaltali á ferlinum. Hinir eru Wilt Chamberlain (30.1 og 22.9), Bob Pettit (26.4 og 16.2) og Karl Malone (25.0 og 10.1).

Elgin Baylor komst átta sinnum í lokaúrslitin með Lakers en náði aldrei að verða meistari. Hann á enn metið yfir flest stig í einum leik í lokaúrslitum því hann skoraði 61 stig á móti Boston Celtics árið 1962.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×