Innlent

21 kórónuveirusmit um helgina

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Nokkur innanlandssmit greindust um helgina og voru ekki allir í sóttkví.
Nokkur innanlandssmit greindust um helgina og voru ekki allir í sóttkví. Vísir/Vilhelm

Alls greindist 21 með kórónuveiruna um helgina. Þetta segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans í samtali við Vísi, en inni í þessari tölu eru smit tíu skipverja á súrálsskipi sem kom til hafnar á Reyðarfirði á laugardag.

Þá standa eftir ellefu smit og segist Már ekki vita nákvæmlega hvernig skiptingin sé í landamærasmit og innanlandssmit en hann telji þó að það séu fjögur til fimm innanlandssmit utan sóttkvíar.

Fram kom í viðtali við Þórólf Guðnason, sóttvarnalækni í Bítinu á Bylgjunni í morgun, að nokkur innanlandssmit hefðu greinst um helgina. Hann hefði áhyggjur af stöðunni og að faraldurinn væri að fara að blossa upp á ný. Þá sagði hann að innanlandssmitin tengdust ekki öll.

„Ég hef mestar áhyggjur af því að þetta sé eitthvað komið út í samfélagið og farið að blossa upp. Það er það sem ég hef mestar áhyggjur af núna,“ sagði Þórólfur.

Á meðal þeirra sem greindust með veiruna um helgina eru kennari í Laugarnesskóla og leikmaður Fylkis í meistaraflokki karla í knattspyrnu. Leikmenn liðsins eru komnir í sóttkví og þá eru áttatíu nemendur í Laugarnesskóla komnir í sóttkví auk fjögurra starfsmanna.

Fyrst var greint frá heildarfjölda smita helgarinnar á vef RÚV.

Uppfært: Staðfestar tölur dagsins voru birtar klukkan 11 og í ljós kom að af sjö innanlandssmitum voru þrjú utan sóttkvíar og tengdust sömu fjölskyldu.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×