Handbolti

Gunnar: Þetta var góður sóknarleikur, kannski einfaldur en góður

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var sáttur eftir sigurinn í dag. 
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var sáttur eftir sigurinn í dag.  Vísir: Hulda

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var sáttur með leik sinni manna er þeir unnu þriggja marka sigur á Gróttu í dag, 27-30. 

,,Ég er ánægður með tvö stig. Það var margt sem gekk vel í dag. Við vorum að leysa sóknina vel á móti 5-1 vörn og að sama skapi varnarlega þegar að þeir fóru í 7 á 6. Þetta var góður sigur, margir að leggja í púkkið og liðsheildin frábær.“

Eins og fyrr segir voru margir að leggja í púkkið hjá Aftureldingu í kvöld og deilast mörkin á allar stöður vallarins.

,,Þetta var góður sóknarleikur, kannski einfaldur en góður. Við erum að fá mörk úr hornunum, línu og fyrir utan. Að sama skapi, þrátt fyrir að fá á okkur 27 mörk vorum við einnig að spila fanta góða vörn.“

Þrátt fyrir að spila góðan leik vantaði nokkra lykilmenn í liðið í dag.

,,Við eigum mikið inni. Guðmundur Árni var veikur og kemur inn í næsta leik. Einar Ingi er búinn að vera í banni í tvo leiki og við fáum hann inn og svo vonast ég til að Arnór komi inn í þetta.“

Afturelding mætir Stjörnunni í næstu umferð Olís-deildar karla.

,,Þetta eru allt úrslitaleikir, nóg eftir og þetta verður áfram blóðug barátta um úrslitakeppni,“ sagði Gunnar að lokum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×