Óhætt er að segja að Kristján Már sé með reyndari mönnum þegar kemur að fréttaflutningi af eldgosum. Hann fjallaði um sitt fyrsta eldgos í upphafi níunda áratugar síðustu aldar þegar Kröflueldar stóðu yfir, þá sem „fljúgandi fréttamaður“ fyrir Dagblaðið og fór hann ásamt ljósmyndara í lítilli tveggja sæta Cessna-flugvél.
„Síðan held ég að ég hafi fylgst með öllum eldgosum síðan,“ sagði Kristján, að sjálfsögðu í sérmerktu öryggisvesti.
„Ætli þetta standi fram yfir helgi?“
Að mati Kristjáns er gosið ekki ósvipað minni gosunum í Kröflueldum. Sprungan væri tiltölulega lítil og gosið hafi byrjað af miklum krafti. Þó væri útlit fyrir að heilmikið hraun flæddi úr sprungunni.
„Þetta er miklu minna en Holuhraunsgosið, það er var margfalt stærra en þetta. Fimmvörðuhálsinn, Kröflugosin – það er kannski það sem þetta minnir mann helst á. Það var ekki mikið hraun sem kom frá þeim.“
Kristján spáði frekar í spilinn og sagðist ekki telja að gosið myndi standa lengi yfir. Það væri kannski léttir upp að vissu marki að gosið væri „túristagos fyrir íslenska túrista“ enda væri nokkuð magnað að fá eldgos svo nærri höfuðborginni, þó erlendir ferðamenn gætu kannski ekki notið þess sökum heimsfaraldurs og ferðatakmarkana.
„Ætli þetta standi fram yfir helgi? Þetta er óútreiknanlegt en þetta er samt spennandi.“