Benda nýjustu gögnin til þess að kvika haldi áfram að flæða inn í kvikuganginn milli Fagradalsfjalls og Keilis en að færsla kvikugangsins til suðurs hafi stöðvast. Þetta er kom fram á fundi vísindaráðs almannavarna sem fram fór í dag.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum en sviðsmyndir sem gefnar hafa verið út eru áfram í gildi. Meðal þeirra er að skjálfti geti orðið á svæðinu milli Kleifarvatns og Bláfjalla af stærð allt að 6,5.

Jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga hefur verið minni síðasta sólarhringinn ef miðað er við virknina um helgina að sögn almannavarna. Talsvert hefur verið um smáskjálfta síðasta sólarhringinn og er það sagt vera merki um hversu kaflaskipt skjálftavirknin hefur verið í hrinunni.
Fram í tilkynningu að mesta skjálftavirknin tengd kvikuganginum, hafi færst um fjóra til fimm kílómetra í norðaustur frá svæðinu við Nátthaga og sé nú staðsett við norðaustanvert Fagradalsfjall, um miðbik þess svæðis sem kvikugangurinn hefur haldið sig á frá upphafi hrinunnar.
Líklegt að hluti kvikunnar hafi storknað
Kvikugangurinn hefur nú verið að myndast í um þrjár vikur og líklegt er að hluti hans hafi storknað. Það að kvika storkni í hluta gangsins, dregur hins vegar ekki úr líkum á að það gjósi á svæðinu að sögn vísindaráðs almannavarna.
Dæmi séu um að skjálftavirkni færist fram og til baka eftir kvikuganginum áður en gos hefjist, til dæmis í aðdraganda Holuhraunsgossins árið 2014.
Að sögn vísindaráðs almannavarna eru eftirtaldar sviðsmyndir líklegastar þegar kemur að framvindu atburða á Reykjanesskaga
- Það dregur úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur
- Skjálftar allt að 6 að stærð verða í nágrenni við Fagradalsfjall
- Skjálfti verður að stærð 6.5 sem á sér upptök í Brennisteinsfjöllum
- Kvikuflæði heldur áfram inn í kvikuganginn í nágrenni við Fagradalsfjall:
- Kvikuinnskotsvirkni minnkar og kvika storknar
- Leiðir til flæðigoss með hraunflæði sem mun líklega ekki ná í byggð
Fréttin hefur verið uppfærð.