Innlent

Slasaðist í mótorhjólaslysi en ekki við töskuburð og fær átta milljónir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Maðurinn rann út af veginum við hringtorg hjá Rauðavatni.
Maðurinn rann út af veginum við hringtorg hjá Rauðavatni. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í byrjun mánaðar Vátryggingafélag Íslands (VÍS) til að greiða karlmanni á sjötugsaldri samtals rúmar átta milljónir í bætur vegna mótorhjólaslyss árið 2017. VÍS taldi hvorki sannað að maðurinn hefði yfir höfuð lent í slysinu né að hann hefði hlotið þar áverka sem ollu honum varanlegri örorku.

Maðurinn lýsti því fyrir dómi að hann hefði verið á leið til Reykjavíkur frá Hveragerði á mótorhjóli í apríl 2017. Þegar hann kom að Rauðavatni hefði hann runnið til á möl við hringtorg hjá vatninu og hafnað út af veginum. Hann lenti illa á vinstri öxl við slysið og fann strax fyrir verkjum. Hann gat ekið hjólinu heim eftir slysið og tilkynnti það ekki.

Fór strax til læknis á Spáni

Maðurinn átti bókað flug til Spánar morguninn eftir og ákvað að fara í þá ferð. Hann varð hins vegar var við það þegar hann fór að bera töskur á flugvellinum að ástandið á öxlinni væri verra en hann hafði haldið í fyrstu.

Hann leitaði til bráðamóttöku Arnau-sjúkrahússins á Spáni daginn eftir að hann flaug út. Í skýrslu bráðamóttökunnar var mælt með skurðaðgerð, sem þó væri ekki aðkallandi, og honum sagt að hafa höndina í fatla. Maðurinn fór til Íslands daginn eftir, tveimur dögum fyrr en áætlað var, og mætti í skoðun á Landspítalanum strax daginn þar á eftir. Við skoðun á spítalanum greindust áverkar eins og tognun á hálshrygg, liðhlaup í axlarhyrnulið og yfirborðsáverkar á úlnlið og hendi.

VÍS hafnaði bótaskyldu úr slysatryggingu mannsins með vísan til þess að ósannað væri að orsakatengsl væru milli slyssins og meiðslanna sem maðurinn greindist með á Spáni og síðar á Landspítala. Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum komst að sömu niðurstöðu.

Maðurinn varð var við axlarmeiðslin er hann lyfti töskum á flugvellinum fyrir Spánarferðina.Vísir/Vilhelm

Afar ósennilegt að töskunum væri um að kenna

Maðurinn aflaði frekari gagna frá læknum í kjölfarið. Í bréfi frá bæklunarskurðlækni kom meðal annars fram að afar ólíklegt væri að hljóta sambærilega áverka og maðurinn var með við það eitt að lyfta þungum töskum. Slíkir áverkar skýrðust fyrst og fremst af falli beint á óvarða öxlina. Þrátt fyrir gögnin komst úrskurðarnefnd aftur að þeirri niðurstöðum að maðurinn ætti ekki rétt á bótum.

Samkvæmt matsgerð sem maðurinn lét vinna var varanlegur miski hans vegna slyssins metinn til 13 stiga og varanleg örorka metin tíu prósent. Hann höfðaði á endanum mál gegn VÍS til að fá bótaskyldu viðurkennda og bætur greiddar.

Hann byggði mál sitt á því að fyllilega væri sannað að varanlegt líkamstjón hans væri af völdum slyssins. Áverkarnir sem hann hefði hlotið væru svo „miklir og sértækir“ að það megi telja útilokað að þeir hefðu komið fram við annað en þungt högg á vinstri öxl þegar hann féll af mótorhjólinu í apríl.

Hefði átt að vita betur

VÍS hélt því fram að manninum hefði hvorki tekist að sanna að hann hefði lent í slysinu né að orsakatengsl væru milli meints óhapps og áverkanna. Slysið hefði hvorki verið tilkynnt til lögreglu og engin vitni hefðu verið að því. Maðurinn, sem var 63 ára þegar óhappið varð, hefði átt að vera fullfær um að meta aðstæður rétt og hefði átt að tilkynna slysið.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að samræmi hefði verið í frásögn mannsins af atvikum máls. Hann hefði því leitt nægar líkur að því að hann hafi slasast við fallið af mótorhjólinu í apríl 2017. Bótaskyldan verði því viðurkennd eins og krafist var.

VÍS var þannig dæmt til að greiða manninum 6,4 milljónir í bætur. Þá greiði félagið manninum jafnframt tvær milljónir úr almennri slysatryggingu, auk 1,4 milljónir í málskostnað sem renna í ríkissjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×