Bíó og sjónvarp

Avatar aftur á toppinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Avatar var endursýnd í kvikmyndahúsum í Kína um helgina.
Avatar var endursýnd í kvikmyndahúsum í Kína um helgina.

Kvikmyndin Avatar frá árinu 2009 er aftur orðin arðbærasta kvikmynd sögunnar, eftir að hún var nýverið endursýnd í kvikmyndahúsum í Kína. Avengers: Endgame hafði tekið efsta sætið af Avatar sumarið 2019.

Avatar halaði inn fjórum milljónum dala í kvikmyndahúsum í Kína á föstudaginn og fór þar með yfir Endgame aftur. Á heimsvísu hafa áhorfendur greitt alls rúmlega 2,8 milljarða dala til að sjá Avatar, samkvæmt frétt CNN, en það samsvarar um um 360 milljörðum króna.

Samkvæmt frétt Deadline hefur Endgame halað inn 2,797 milljörðum dala.

Leikstjórinn James Cameron sló eigið met þegar Avatar verð tekjuhæsta myndin árið 2010. Þar áður var Titanic, sem Cameron leikstýrði einnig, sú tekjuhæsta kvikmynd sem hafði verið framleidd.

Allar myndirnar þrjár eru nú í eigu Disney.

Þegar Endgame tók fram úr Avatar birti Cameron mynd af Iron Man á Pandoru.

Sjá einnig: James Cameron óskar Marvel til hamingju með að hafa slegið met sitt

Bræðurnir Joe og Anthony Russo, leikstjórar Endgame, virðast sömuleiðis hafa tekið þessum nýjustu fregnum vel og hrósuðu Cameron á instagram.

Cameron hefur um árabil unnið að gerð fjögurra nýrra kvikmynda í söguheimi Avatar. Frumsýningu fyrstu framhaldsmyndarinnar hefur ítrekað verið frestað og stendur nú til að frumsýna hana í desember á næsta ári.

Faraldur nýju kórónuveirunnar hefur komið niður á framleiðslu myndanna en Cameron sagði í september í fyrra að tökum fyrir Avatar 2 væri lokið og Avatar 3 væri langt komin. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.