Enski boltinn

Pep ekki sammála leikmanni sínum á blaðamannafundi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola með Oleksandr Zinchenko eftir einn leikinn hjá Manchester City.
Pep Guardiola með Oleksandr Zinchenko eftir einn leikinn hjá Manchester City. EPA-EFE/ALAN WALTER

Oleksandr Zinchenko segir að Manchester City geti unnið fernuna á þessu tímabili en knattspyrnustjórinn Pep Guardiola er ekki sammála honum.

Pep Guardiola og Oleksandr Zinchenko voru fulltrúar Manchester City á blaðamannafundi liðsins fyrir Meistaradeildarleik við þýska félagið Borussia Mönchengladbach sem fram fer í kvöld.

Hinn 24 ára gamli Zinchenko hélt því fram að Manchester City hefði alla burði til að vinna fjóra titla í vor eða ða verða enskur meistari, enskur bikarmeistari, enskur deildabikarmeistari og að vinna Meistaradeildina.

Pep Guardiola var ekki alveg á sömu skoðun og leikmaður sinn þegar ummæli Úkraínumannsins voru borin undir Guardiola.

„Ég er eldri en Zinchenko, ég hef meiri reynslu en hann og ég er ekki sammála honum,“ sagði Pep Guardiola á blaðamannafundinum.

„Það eina sem hann þarf að hafa áhyggjur af er að vinna leikinn á morgun [Í kvöld] og komast áfram í næstu umferð. Það hefur ekkert lið unnið fjóra titla á einu tímabili áður og það er mín skoðun að það sé ekki að fara að gerast. Ef þú ert að spyrja mig um það hvort ég sé sammála honum þá er svarið við því nei,“ sagði Guardiola.

Manchester City hefur aldrei unnið Meistaradeildina en vann heimaþrennuna tímabilið 2019-20.

„Ég held að allt sé mögulegt með Pep. Við erum með ótrúlegan hóp, bestu leikmenn í heimi og án efa getum við unnið fernuna, af hverju ekki?,“ sagði Oleksandr Zinchenko.

Seinni leikur Manchester City og Borussia Mönchengladbach fer fram í Búdapest í kvöld alveg eins og fyrri leikurinn. Leikurinn í kvöld er samt heimaleikur City en lærisveinar Pep unnu fyrri leikinn 2-0.

Leikur Manchester City og Borussia Mönchengladbach verður sýndir í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3 og hefst útsendingin klukkan 19.50. Á sama tíma verður leikur Real Madrid og Atalanta sýndur beint á Stöð 2 Sport 2. Upphitun fyrir Meistaradeildina hefst klukkan 19.15 á Stöð 2 Sport 2 og Meistaradeildarmörkin verða síðan á sömu stöð eftir leiki kvöldsins eða klukkan 22.00.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×