Rafmagnslaust var í í Arnarhrauni og Smyrlahrauni í Hafnarfirði frá klukkan hálf sjö í morgun til rúmlega tíu. Þar varð einnig rafmagnslaust í gærkvöldi. Egill Sigmundsson sviðsstjóri rafmagnssviðs HS Veitna segir að menn hafi talið að þeir væru búnir að lagfæra bilunina í gærkvöldi en sama bilun hafi svo komið aftur upp í morgun.
„Við töldum að við værum búin að greina hvar þetta væri í gær, þetta er sem sagt bilun í holtunarkerfinu hjá okkur þar sem margar dreifistöðvar hanga á háspennustrengjum. Hún kom svo aftur upp í morgun en það tókst að lagfæra hana rétt eftir tíu í morgun,“ segir Egill.
Rafmagnslaust varð í Grindavík um tíma þann 5. mars þegar bruninn háspennurofi olli rafmagnsleysi þar klukkustundum saman. HS Veitur tilkynntu að ekki væri talið að bilunin tengdist jarðhræringum þar síðustu daga. Sama dag varð rafmagnslaust á Selfossi um tíma vegna útleysinga á Selfosslínu 1.
Egill segir útilokað að rafmagnsbilunin í Hafnarfirði síðasta sólahring tengist jarðhræringunum á Reykjanesi.
„Bilun í strengjum verður bara og gerist nánast vikulega ekki kannski hjá okkur en út um allt land. Við erum kannski með 1-2 háspennubilanir í Hafnarfirði á ári. Það er útilokað að bilunin nú tengist jarðaskjálftahrynunni á Reykjanesi,“ segir Egill.