Fótbolti

Fyrst allra Græn­lendinga til að leika í Meistara­deild Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Asii Kleist Berthelsen varð í gær fyrst allra Grænlendinga til að leika í Meistaradeild Evrópu.
Asii Kleist Berthelsen varð í gær fyrst allra Grænlendinga til að leika í Meistaradeild Evrópu. Sermitsiaq AG

Á miðvikudaginn varð Asii Kleist Berthelsen fyrst allra Grænlendinga til að leika í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu. Þó svo að leikurinn hafi tapast þá má með sanni segja að Berthelsen hafi skráð sig á spjöld sögunnar.

Frá þessu greindi miðillinn Sermitsiaq AG.

Berthelsen leikur með danska knattspyrnuliðinu Fortuna Hjørring og þó liðið hafi tapað 5-0 fyrir Barcelona á heimavelli á miðvikudaginn, og einvíginu samtals 9-0, er liðin mættust í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu getur hin 17 ára gamla Asii Kleist Berthelsen verið nokkuð ánægð með að hafa tekið þátt í leiknum.

Hún kom inn af varamannabekk Fortuna Hjørring á 75. mínútu og lék síðustu fimmtán mínúturnar. Þar með skráði hún sig í sögubækur grænlenskrar knattspyrnu en hún er fyrsti Grænlendingurinn sem tekur þátt í Meistaradeildeinni.

Haustið 2019 varð Berthelsen fyrsta knattspyrnukonan frá Grænlandi til að vera valin í danska landsliðið. Hún var þá valin í U16 ára landslið Danmerkur. Það er því ljóst að við gætum því heyrt töluvert meira af Berthelsen á komandi árum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×